Flautumark Óðins vængstýfði Valsmenn

Þetta var aldrei í hættu, er það nokkuð? Nei, nei ekkert okkar efaðist, allir pollrólegir yfir þessum leik. Já, eða þannig. FH fékk Val í heimsókn í gærkvöld, sama lið og skoraði fimm mörk á FH í fyrri hálfleik síðast þegar liðin spiluðu. Nei nei, ég efaðist aldrei að við myndum landa þessu, en þú? Hélt það, við vorum öll alveg slök.

Einar Rafn var flottur í gærkvöldi og markahæstur með 8 mörk / Mynd: Jói Long

Að öllu gríni slepptu, þá var erfitt að horfa á þennan leik. Frá fimmtu mínútu og þar til á bókstaflega síðustu sekúndu leiksins voru Valsmenn þessum 1-3 mörkum yfir. FH komst í 3-1 en svo jöfnuðu Valsarar og voru með yfirhöndina þangað til á síðustu sekúndum leiksins. Birkir Fannar kom í mark FH um miðjan fyrri hálfleik, en varð fyrir því óhappi að fá leikmann á fullri ferð í hnéð á löppinni sem hann stóð, þegar lítið var eftir af fyrri hálfleik. Hann virtist sárþjáður. Við vonum að þessi meiðsli séu ekki alvarleg og óskum honum skjóts baka.

FH var eins og bíll sem er fastur í öðrum gír en hjakkast samt áfram. Þeir reyndu og reyndu en tókst ekki að komast almennilega af stað, en náðu þó að halda Val í höggfæri allan leikinn. Í hvert sinn sem FH virtist vera að snúa leiknum við þá fór eitthvað úrskeiðis, menn áttu klaufalega sendingu eða létu reka sig útaf.

Þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik lét Orri Freyr Gíslason í liði Vals reka sig í sturtu fyrir ljótt brot. Leit allt út fyrir að FH-ingar næðu að minnka muninn fyrir hlé en hraðaupphlaup í stöðunni 15-17 klúðraðist, Valsarar náðu síðan að svara með hraðaupphlaupi sem Ágúst Elí varði. Hann var samtals með 10 bolta, oft verið betri en þeir boltar sem hann varði voru hrikalega mikilvægir.

Arnar Freyr sneri aftur í lið FH eftir meiðsli, og hann reyndist óhemju mikilvægur – 5 mörk í 5 skotum og flottur varnarlega sem fyrr / Mynd: Jói Long

Seinni hálfleikur var framan af eins og sá fyrri. FH minnkaði muninn, Valur gaf í, FH minnkaði muninn og svo framvegis. Einar Rafn og Ísak voru að spila vel, en mér fannst Arnar Freyr bera af í hálfleiknum, slúttaði mjög vel og spilaði flottan varnarleik. Kærkomið að fá þennan lykilmann til baka eftir meiðsli, en hann hefur ekki getað spilað frá því í desembermánuði.

Þegar sjö mínútur voru eftir skoruðu Valsmenn sitt síðasta mark í leiknum, staðan 27-30 og ekki langt í að áhorfendur færu að örvænta. En strákarnir sýndu rosalegan karakter. Vörnin small virkilega vel saman, Ágúst varði þrjá bolta á síðustu fimm og strákunum tókst einhvern veginn að koma tuðrunni í netið, þó sóknarleikurinn hefði ekki verið neitt sérstakur.

Óðinn Þór með flautumark til að trylla lýðinn – færð alltaf nóg fyrir aðgangseyrinn í Krikanum! / Mynd: Jói Long

Þegar 120 sekúndur voru eftir jöfnuðu FH 30-30, Valur missir boltann, Magnús Óli brýtur á Einar Rafni og fær tvær. Þegar örfáar sekúndur eru eftir af leiknum hanga FH-ingar á boltanum, og höndin er komin upp, Ísak skýtur, varið, andköf! Hver birtist í horninu annar en Óðinn Þór, sem nær frákastinu og slúttar snyrtilega framhjá Einari Baldvin í marki Vals, og tryggir FH þar með sigur á síðasta sekúndubroti leiksins! Lokatölur 31-30, FH í vil.

Að ná að klára þennan leik, eftir að hafa verið undir í 55 mínútur, eftir að hafa klikkað á móti Fram og Fjölni, eftir að hafa í raun ekki spilað vel mest allan leikinn er merki um frábæran karakter. FH á fjóra leiki eftir í deildinni, og er með fimm stiga forskot. Það er samt ekki alveg jafn sætt og það hljómar, ÍBV á nefnilega tvo leiki til góða. Að ná að klára þennan leik var stórt skref í átt að því að verja deildarmeistaratitillinn en það er ekkert unnið ennþá, næsta stóra próf er nefnilega gegn áðurnefndum Eyjamönnum í Eyjum á sunnudag. Það verður rosalegur leikur.

VIÐ ERUM FH!!!

-Ingimar Bjarni

Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 8, Ísak Rafnsson 6, Arnar Freyr Ársælsson 5, Ágúst Birgisson 4, Ásbjörn Friðriksson 4/3, Óðinn Þór Ríkharðsson 4.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 11 (30%), Birkir Fannar Bragason 3 (43%).

Aðrar fréttir