Frábær árangur hjá 5. flokki karla

Frábær árangur hjá 5. flokki karla

Um helgina fór fram þriðja mótið hjá 5. flokki karla, en mótið var jafnframt hluti af Íslandsmótinu og voru leikirnir spilaðir á Ásvöllum og í Strandgötunni. Eftir góðan árangur á hinum mótunum voru strákarnir harðákveðnir í því að standa sig.

Það er skemmst frá því að segja að sú varð heldur betur raunin! Mótið hófst á föstudeginum en þá hóf A – liðið leik. Strákarnir mættu heldur betur stemmdir til leiks, unnu alla 3 leikina og voru því komnir í væna stöðu fyrir milliriðilinn sem var leikinn á sunnudeginum.

Á laugardaginn mættu síðan hin liðin til leiks, B – liðið og C – 1 og C – 2. C – liðin unnu bæði alla sína leiki og komust því með fullt hús stiga í milliriðlana sína. B – liðið vann 2 leiki og gerði svo jafntefli í hörkuleik gegn HK. Strákarnir voru einu marki yfir undir lokin en HK náði að jafna úr víti um leið og leiktíminn rann út. Strákarnir sigruðu þó sinn riðil, en þar sem HK lentu í öðru sæti og komust einnig áfram í milliriðilinn, þýddi það að við fengum aðeins 1 stig með okkur áfram.

Á sunnudeginum lentum við þjálfararnir í klípu því að að C – liðin spiluðu í Strandgötunni og A og B – liðin spiluðu á sama tíma í sitthvorum salnum uppi á Ásvöllum. Eftir miklar og heimspekilegar vangaveltur, ákváðum við að lokum að Hilmir sæi um C – liðin, Árni Stefán B – liðið og Sigursteinn A – liðið.

C – liðin hófu leik eldsnemma á sunnudagsmorguninn og unnu bæði fyrsta leikinn í sitt hvorum milliriðlinum. Þá leit fyrsta tapið dagsins ljós hjá C-2 gegn erkifjendunum í Gróttu 1, en sá leikur tapaðist eftir arfaslakan seinni hálfleik og því ljóst að þeir myndu spila um 3. sætið í mótinu. Í næsta leik á eftir tóku leikmenn C-1 til sinna ráða og unnu lið Gróttu 2 og tryggðu sér þannig farmiðann í úrslitaleikinn gegn liði Gróttu 1, sem hafði unnið C-2 í hinum milliriðlinum.

Seinni part sunnudagsins var svo komið að leikjunum um sætin og virtist sem C-2 hefðu lært sína lexíu, því þó að á móti blési stóðu þeir sig gríðarlega vel. Unnu sinn leik og voru vel að því komnir. Síðan tók við úrslitaleikurinn hjá C-1 sem fékk sannarlega púlsinn til að rísa. Skemmst er frá því að segja að eftir venjulegan leiktíma og framlengingu, réðust úrslit með hlutkesti sem við unnum, enda er Árni Stefán heppinn með afbrigðum! Strákarnir höfðu það á orði að þeim hugnaðist illa að ákvarða úrslit leiksins eftir að þeir höfðu tapað úrslitaleik á hlutkesti árinu áður, en nú gekk lukkan í lið með drengjunum og voru þeir mjög vel að sigrinum komnir. Enda hafa þeir æft vel, tekið leiðsögn og sýnt gífurlegar framfarir.

B – liðið hafði komið mjög á óvart hingað til, enda var það þjakað af meiðslum. Fyrsti leikurinn í milliriðlinum var á móti Stjörnunni og það var eins og menn hefðu hreinlega gleymt að vakna. Eftir alveg skelfilegan fyrri hálfleik sýndu strákarnir þó mikinn karakter í þeim síðari og gerðu sitt besta til að minnka muninn, en það tókst því miður ekki og Stjarnan unnu því leikinn.. Síðari leikurinn var svo gegn Gróttu sem voru með firnasterkt lið. Jafnræði var með liðunum framan af, en þegar líða tók á leikinn sigu Gróttustrákarnir aðeins framúr okkur og sigruðu að lokum. Strákarnir sýndu þó mikla baráttu og eiga hrós skilið fyrir frábæra spilamennsku. Þetta þýddi að þeir urðu að láta sér lynda leik um 5. sætið sem þeir og unnu. Það verður að teljast ágætis árangur, enda vantaði í liðið marga leikmenn sem munu án efa mæta tvíefldir til leiks á næsta móti.

A – liðið byrjaði daginn á sigri gegn Gróttu. Þá var komið að leik gegn erkifjendunum í Haukum, en með sigri kæmust strákarnir í úrslitaleikinn. Leikurinn var gríðarlega spennandi allan tímann og það dramatískur að sumir foreldarnir á svæðinu voru farnir að loka augunum á köflum! Með miklu harðfylgi tókst strákunum þó að sigra og þá var ekki að spyrja að framhaldinu, því að úrslitaleikinn sigruðu þeir nokkuð örugglega og enduðu því í 1. sæti.

Sannarlega frábær árangur hjá strákunum sem voru allir að spila mjög v

Aðrar fréttir