Frábær sigur gegn KA!

Frábær sigur gegn KA!

Meistaraflokkur karla gerði góða ferð norður yfir heiðar í gær, þegar þeir lögðu KA-menn í miklum baráttuleik, 28-30. FH-liðið var þjakað af meiðslum og “þjálfaralaust” í þokkabót, en sem kunnugt er þá er Atli Hilmarsson ennþá að jafna sig eftir uppskurðinn. Strákarnir hafa þó verið undir tryggri leiðsögn Arnars Geirssonar aðstoðarþjálfara og Einars Andra Einarssonar. Sigurinn í gær var því enn sætari fyrir vikið.

Leikurinn fór rólega af stað og sterkar varnir og mikil barátta einkenndu leikinn. Okkar menn fóru þó smátt og smátt að byggja upp ágætis forskot sem fór mest í 6 mörk, 12-18, en KA tókst þó aðeins að laga stöðuna fyrir hlé og þegar leikmenn gengu inn til búningsklefa í hálfleik var staðan 14-19, FH í vil. Það var aðallega tvennt sem bjó til þetta forskot fyrir okkur; gríðarlega sterkur varnarleikur með Sigurstein Arndal fremstan í flokki og svo Valur Örn Arnarsson sem fór gjörsamlega hamförum í sókninni. Hann skoraði 7 mörk úr vinstri skyttunni í öllum regnbogans litum og slakaði ekki á klónni fyrr en KA-menn fóru að taka hann úr umferð.

Seinni hálfleikurinn fór svipað af stað og okkar menn héldu forskotinu framan af. Þá hinsvegar fóru þeir að fjúka útaf of mikið og KA-menn nýttu sér það og söxuðu grimmt á forskotið. FH hinsvegar héldu haus og náðu að klára leikinn en lokatölur urðu sem fyrr segir, 28-30.

Á heildina litið var þessi leikur frábærlega spilaður af okkar hálfu. Vörnin var fyrnasterk, menn keyrðu hraða miðju villt og galið og sóknarleikurinn gekk fínt í fyrri hálfleik, en eftir að Valur var tekinn úr umferð kom þó smá hikst á hann. Aðrir í liðinu stigu þó upp og tóku af skarið. Andri Berg setti nokkur góð mörk og Hjölli var duglegur við að skapa sér pláss á línunni og fiska víti sem Linas átti ekki í vandræðum með að setja í netið. Þá var Maggi að verja alveg gríðarlega mikilvæga bolta oft á tíðum sem átti sinn þátt í því að tryggja okkur sigurinn.

Hinn 15 ára gamli Aron Pálmarsson kom inn á í öðrum leik sínum með meistaraflokki og gerði eitt gott mark. Aftur sýndi hann mikla yfirvegun í sínum leik og ljóst má vera að þarna er á ferðinni gríðarmikið efni.

Þessi sigur á KA á vonandi eftir að virka sem vítamínsprauta á okkar menn sem eru rækilega búnir að minna á sig í deildinni undanfarið. Leikur liðsins fer batnandi með hverjum leik og það er einfaldlega orðið virkilega skemmtilegt að fylgjast með leikjum hjá strákunum. Þeir spila gríðarlega hraðan bolta og vörnin stendur þétt og föst hinumegin á vellinum. Næsti leikur liðsins er gegn Stjörnunni í Krikanum 12. mars og nú er engin elsku mamma lengur. Núna hreinlega verðum við FH-ingar að fjölmenna á völlinn og styðja við bakið á strákunum. Liðið stendur núna á þröskuldinum við sæti í efstu deild að ári og með spilamennsku eins og strákarnir sýndu gegn KA í gær, sé ég ekkert því til fyrirstöðu að þeir endi í einu af 8 efstu sætunum í vor.

En að lokum er rétt að segja frá skemmtilegu atviki sem átti sér stað í lok leiksins í gær. Fyrir leik höfðu KA-menn heiðrað Atla Hilmarsson, sem enn er hafður í hávegum fyrir norðan, með stæl. Kynnir leiksins spilaði lag til heiðurs Atla og kynnti til leiks forkunnarfagurt auglýsingaskilti í líkamsstærð frá Sparisjóði Norðlendinga, sem á var risamynd af Atla haldandi á kreditkorti sem á stóð: “KA eru bestir!”

Um leið og dómararnir flautuðu svo til leiksloka voru okkar menn ekki lengi að kveikja á perunni, heldur brunuðu beint að “Atla”, rifu hann með sér inn á miðjan völl og tolleruðu hann í gríð og erg! Þeir fjölmörgu áhorfendur sem lögðu leið sína í KA-heimilið í gær, gátu ekki annað en brosað og hlegið með og er það ansi grátlegt að sjónvarpið hafi ekki verið á staðnum til að festa þetta á filmu!!

Aðrar fréttir