Frábær staða FH að lokinni fyrri umferð

Frábær staða FH að lokinni fyrri umferð

Ef við lítum á þá leikmenn sem FH missti fyrir þetta tímabil þá eru það algjörir lykilmenn. Fyrst ber að telja Heimi Guðjónsson fyrirliða og hjartað í liðinu í mörg ár. Allan Borgvardt besta leikmann íslensku deildarinnar undanfarin þrjú ár og svo Auðun Helgason sem átti frábært tímabil í fyrra og vann sig inn í íslenska landsliðið á nýjan leik.

Einnig hurfu þeir Jón Þorgrímur Stefánsson sem var hraður og leikinn kantari og Jónas Grani Garðarsson framliggjandi og markheppinn miðjumaður á braut en báðir þessir leikmenn hafa leikið stórt hlutverk í FH-liðinu undanfarin ár.

Óupptalinn er Sverrir Garðarsson sem vakti mikla athygli 2003 og 2004 en varð fyrir slæmum meiðslum í fyrra og hefur því miður ekki náð sér sem skyldi. Ég hugsa að Sverrir væri nálægt A-landsliðinu ef hann hefði verið heill síðustu tvö ár, hann var á það góðri siglingu en vonandi nær hann sér vel.

Ofan á þessa blóðtöku hefur FH-liðið einnig fengið sinn skerf af meiðslum. Tommy Nielsen hefur misst af þó nokkrum leikjum sem og Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Ólafur Páll Snorrason og nú síðast meiddist Freyr Bjarnason og verður frá í 3 vikur. Allan Dyring hefur einnig átt við meiðsli að stríða og hann hefur ekki enn fundið fjölina sína og Peter Matzen hefur því miður verið meiddur síðan hann kom og ekki getað sýnt hvað í honum býr.

Það verður því að teljast með ólíkindum gott hjá FH-liðinu að hafa staðið sig jafn vel og raun ber vitni.  Að vísu fengum við líka góðan liðstyrk fyrir tímabilið, Sigurvin Ólafsson hefur smellpassað inn í FH-liðið og Davíð Þór Viðarsson hefur verið ómissandi hlekkur og spilar betur með hverjum leik.
 
FH hefur aðeins fengið á sig 5 mörk í 9 leikjum þrátt fyrir að hafa leikið flesta leikina án Tommy Nielsen og að sjálfsögðu hefur Auðun ekkert komið við sögu. En maður kemur í manns stað og Ármann Smári Björnsson hefur svo sannarlega staðið sig frábærlega í stöðu miðvarðar.

Það er mikil seigla og barátta í FH-liðinu og öryggi sigurvegarans sem þekkir varla að tapa. FH hefur ekki náð að spila þann leiftrandi sóknarfótbolt og síðustu ár en ég minni á að FH-liðið hefur vanalega verið nokkuð lengi að hitna, það hefur verið einkenni á liðinu síðustu ár að það hefur fyrst komist verulega á flug í síðari umferðinni. Svo verður að segjast eins og er að skarð Allans Borgvardt hefur ekki verið fyllt og að einnig finnst mér viss sjónarsviptir af Jón Þorgrími á góðum degi á kantinum.

En þó staðan sé óneitanlega vænleg nú þá er engin ástæða til að ofmetnast, markmiðið hlýtur að vera að vinna deildina og taka svo loksins bikarinn. Einnig eru spennandi leikir í Evrópukeppninni framundan þannig að góðir FH-ingar nú fer ballið að byrja….

Aðrar fréttir