Frábærir stuðningsmenn

Frábærir stuðningsmenn

Það var gaman að vera FH-ingur í Safamýrinni síðastliðin
miðvikudag þegar strákarnir unnu Fram í erfiðum en afar skemmtilegum leik.  Það er ljóst að okkar frábæru stuðningsmenn sýndu
þar mátt sinn og megin þegar liðið þurfti sem mest á stuðningi að halda eftir
þrjá tapleiki í röð sem höfðu klipið duglega af sjálfstrausti liðsins og sett
markmið um sæti í úrslitakeppninni í uppnám. 
Ég get lofað ykkur því að sá stuðningur fór ekki framhjá leikmönnum og
klárt mál að hann gerði gæfumuninn þegar mest á reyndi í upphafi síðari
hálfleiks.

Þetta er akkúrat það sem FH snýst um og hefur alltaf snúist
um.  Samstaða og semheldni þessa magnaða félags
er með ólíkindum.  Og öll erum við stolt
af að tilheyra þessu félagi.  Og eigum að
vera það.  Við erum auðvitað alltaf
stórveldi þó sumir vilji halda annað. 
Munum að stórveldi deyja aldrei, þau leggjast kannski í dvala.  En deyja aldrei. 

En baráttunni er engan vegin lokið og sæti í
úrslitakeppninni enn ekki tryggt.  Höfum
í huga að við tilheyrum þessu félagi ekki bara á góðum stundum með titla í húsi
heldur líka, og ekki síst á erfiðum stundum. 
Og þá reynir einmitt mest á samstöðuna og samheldnina.  Nú á liðið eftir tvo erfiða leiki sem báðir
þurfa að vinnast til að tryggja sæti í úrslitakeppninni.  Þar sem við viljum að sjálfsögðu öll sjá
liðið.

Ég skora því á ykkur öll að taka höndum saman, mæta á þessa
leiki og láta strákana finna þann magnaða stuðning sem stuðningsmenn FH eru jú
þekktir fyrir.  Sýnum af heilum hug hvers
við erum megnug, hóum í vini og vandamenn í kringum okkur, finnum hvítu
treyjurnar og fyllum Krikann á mánudag þegar liðið mætir Val í síðasta
heimaleiknum fyrir úrslitakeppni. 

Nú er komið að því að sýna fyrir hvað FH stendur!

Guðjón Árnason

aðstoðarþjálfari mfl kk

Aðrar fréttir