Fram – FH skilaboð til FHinga

Fram – FH skilaboð til FHinga

Í fyrsta heimaleik N1 deildarinnar í vetur gaf FH tóninn með því að kjöldraga lið Vals á 80 ára afmælisdegi félagsins. Síðan þá hafa margir frábærir sigrar unnist og handboltinn sem liðið hefur boðið upp á verið frábær skemmtun fyrir áhorfendur.

Upp á síðkastið hefur FH liðið heldur betur fengið vindinn í fangið og róðurinn verið þungur. Þrír tapleikir í röð eru staðreynd og sæti í úrslitakeppninni í hættu. Það er á stundum sem þessum sem liðið okkar þarf mest á stuðningi okkar að halda.

Á miðvikudaginn halda svarthvítu hetjurnar í Safamýrina þar sem þeir leika við sjóðandi heitt lið Fram. Leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið og verður á brattann að sækja. Þess vegna þurfum við að fjölmenna á pallana klædd í hvítu og öskra okkar menn til dáða strax frá fyrstu mínútu. Sýnum hvers vegna stuðningsmenn FH eru langöflugustu stuðningsmenn landsins og gerum allt vitlaust.

Með því að mæta á leikinn er gert ráð fyrir að þú ætlir að öskra og æpa frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Þú ert að segja að þegar FH-liðið þarf á þér að halda þá svarir þú kallinu. Þú ert að segja að þú sért alvöru FH-ingur.

Áfram FH!

Jóhann Skagfjörð

Aðrar fréttir