Frjálsar kepptu á Íslandsmóti 15-22 ára.

Frjálsar kepptu á Íslandsmóti 15-22 ára.

Íslandsmót 15-22 ára var haldið um helgina og eignuðumst við FH-ingar nokkra Íslandsmeistara ásamt því að lenda oft á palli og svo voru bætingarnar ansi margar, hreint út frábær árangur hjá frjálsíþróttafólkinu.

Þorkell Einarsson varð Íslandsmeistari í 200 metra hlaupi Ungkarla, einnig vann hann 400m á frábærum tíma 50.35, en í því hlaupi varð Guðmundur Heiðar Guðmundsson í þriðja sæti, en Þorkell varð einnig annar í 60m hlaupinu, flottir strákar sem við eigum þarna.

Örn Davíðsson spjótkastari okkar FH inga vann kúluvarpið með yfirburðum, en einnig endaði hann annar í  hástökkinu, skemmtilegur árangur þar sem þessar greinar eru nú ansi ólíkar (og venjulega eru ansi miklar andstæður á fólki í þessum greinum J )

Haraldur Tómas Hallgrímsson varð Íslandsmeistari í 3000 metra hlaupi, og varð einnig annar í 1500 metra hlaupi.

Steinunn Arna Atladóttir varð Íslandsmeistari í 60m grindarhlaupi og hljóp hún frábærlega, en einnig endaði hún önnur í 60metra hlaupi.

Heiðdís Anna Lúðvíksdóttir varð Íslandsmeistari í stangarstökki stúlkna, en hún æfir einmitt hjá henni Þóreyju Eddu sem allir ættu að þekkja.

Jóhanna Herdís Sævarsdóttir varð önnur í kúluvarpi meyja, og kastaði hún mjög vel.

Salbjörg Sævarsdóttir varð önnur í hástökki, en hún vann svo til brons í kúluvarpi, líkt og Örn keppir hún í þessum andstæðu greinum.

Sara Úlfarsdóttir fékk bronsið í 400 metra hlaupi með frábærri bætingu og hljóp á tímanum 60.88 sek.

Adam Freysson var í 3ja sæti í 60m hlaupi, en hann er yngri bróðir Óla „Spretts“ eins og Wipeout kallar hann, en Óli er margfaldur Íslandsmeistari í stuttu vegalengdunum.

Helga Lísa Helgadóttir varð 3ja í 800m hlaupi.

Páll Kristinn Arason fékk bronsið í þrístökki

Stúlknasveit FH vann gullið í 4×200 metra boðhlaupi.

Sveinasveit FH í 4x200m boðhlaupi fékk silfrið

Þetta er mjög flott hjá unga fólkinu hjá okkur, en næstu helgi 5.-6. Febrúar er Íslandsmótið (fullorðinna) og verður gaman að sjá hvernig FH-ingunum mun ganga á því móti!

Áfram FH

Aðrar fréttir