Fundur með Aðalstjórn FH í Kaplasal 1.okt kl: 20:00

Fundur með Aðalstjórn FH í Kaplasal 1.okt kl: 20:00

Þá er fundurinn með aðalstjórn FH búinn og fengum við nokkuð ítarlegar upplýsingar um uppboðsmálið á eignum félagsins í Kaplakrika. Þetta var aðeins eitt af umræðuefnum fundarins sem var mjög gagnlegur. Fundi sem þessa þyrfti að halda oftar því þetta er kjörinn vettvangur fyrir stjórnir deildanna til að fá aðra sýn á umdeild málefni. Hreinskilnislegar umræður hjálpa deiluaðilum að finna farsælar lausnir á ágreiningsefnum. Þetta er aðferð sem við mættum nota mun oftar í okkar starfi innan félagsins.

Flestir fundarmenn fengu að heyra ýmislegt sem þeir vissu ekki um þannig að draga má þá ályktun að flæði upplýsinga þyrfti að vera mun betra. Sýnist mér(okkur) að Aðalstjórn þurfi að taka sig verulega á í þessum efnum. Því er ekki að leyna eins og komið hefur fram að fundurinn var jákvætt framtak og mjög gagnlegur fyrir þá fulltrúa Frjálsíþróttadeildarinnar sem mættu.

En varðandi skuldina sem kannski rak mest á eftir fundinum þá stendur hún enn ógreidd. Það er bagalegt þegar deildir innan FH – í þessu tilfelli Knattspyrnudeildin, standa ekki skil á opinberum gjöldum og/eða öðrum fjárskuldbindinum sem stofnað hefur verið til. En það er beinlínis grátlegt þegar stærsti hluti umræddrar skuldar er til kominn vegna vaxta og áfallins kostnaðar sem hefði verið hægt að komast hjá ef gripið hefði verið í taumana í tæka tíð. FH hefur ekki efni á slíku aðgerðaleysi. Einnig er slæmt að horfa upp á að Aðalstjórn þurfi hugsanlega að hlaupa undir bagga og greiða umrædda skuld því þá er í raun og veru verið að taka peninga úr sameiginlegum sjóðum félagsins til að greiða úr óráðsínu einnar deildar, peninga sem ættu með réttu að nýta til uppbyggingar félagsins sem heildar.

MH/KG/HFK

Aðrar fréttir