Fyrsta tap FH á Akureyri í 2 ár staðreynd

Fyrsta tap FH á Akureyri í 2 ár staðreynd

Í kvöld léku FH-ingar gegn Akureyri norðan heiða í 3. umferð N1-deildar karla. Fyrir leikinn sátu Akureyringar í 2. sæti deildarinnar en FH-ingar í 4. sæti, og því mátti búast við hörkuleik. Sú varð raunin, en þó má segja að eftir fyrri hálfleik leiksins hafi jafnræði seinni hálfleiksins komið á óvart.

Fyrri hálfleikur
Hægt er að lýsa fyrri hálfleik með einu orði. SKELFILEGT. FH-ingar mættu bara ekki til leiks, varnarleikurinn var kæruleysislegur og sóknarleikurinn ekki mikið betri. Akureyringar réðu ferðinni frá upphafi til enda og fengu oft á tíðum að gera ansi margt sem að þeir hefðu ekki gert ef vörn FH-inga hefði verið í lagi. Menn eins og Heimir Örn Árnason og Árni Sigtryggsson fengu að gera það sem að þá langaði til án þess að liðsmenn FH hefðu nokkuð við því að segja. Það var helst Bjarni Fritzson sem að gerði eitthvað af viti í liði FH í fyrri hálfleik, hann skoraði 7 mörk. Markamunurinn í hálfleik segir annars alla söguna: staðan 19-12 í hálfleik, Akureyri í vil.

Seinni hálfleikur
Það var allt annað á teningunum í seinni hálfleik. Ferskir FH-ingar mættu grimmir til leiks og náðu á einungis 8 mínútum að jafna leikinn, 19-19. Sterk vörn og góð sókn olli þessum gríðarlega hraða viðsnúningi, greinilegt að Einar Andri hafði lesið vel yfir mönnum í hálfleik. Bjarni Fritzson hélt uppteknum hætti og menn eins og Ólafur Guðmundsson og Ólafur Gústafsson byrjuðu að sýna meir en áður í leiknum. Jafnt var á öllum tölum en FH-ingum virtist meinað að ná forystunni þrátt fyrir góðan leik. Á 41. mínútu leiksins urðu FH-ingar fyrir áfalli, en þá var Ólafur Guðmundsson rekinn út af í þriðja sinn í leiknum og fékk þar með rautt spjald. Ólafur hafði virkað sprækur mínúturnar þar á undan og þetta var því mikið sjokk fyrir lið FH, sem að þó hélt áfram að berjast.

FH-ingar voru þó ekki dauðir úr öllum æðum. Ólafur Gústafsson steig upp í leik FH-inga og setti nokkrar slummur sem að hjálpuðu strákunum að halda í við Akureyringana, sem að sýndu ákveðin batamerki eftir slaka byrjun í seinni hálfleik. Fín frammistaða Óla dugði þó ekki því að FH-ingar þurftu á endanum að lúta í gólf: lokatölur voru 33-30.

Leikur liðsins í fyrri hálfleik er með því versta sem að sést hefur í deildinni í vetur. FH-ingar voru gjörsamlega andlausir og létu Akureyringa keyra yfir sig. Seinni hálfleikur var mun betri en það dugði þó ekki, Akureyringar höfðu það sem þurfti til að klára leikinn. Efast ég ekki um það að ef FH-ingar hefðu spilað eins og menn í fyrri hálfleik hefðu þeir unnið leikinn. En þeir sýndu eftir sem áður gríðarlegan karakter með því að komast aftur inn í leikinn, en það bara var ekki nóg.

Bjarni Fritzson var afburðamaður í kvöld, en hann skoraði 12 mörk og er því markahæstur 3. leikinn í röð. Næstur honum kom Ólafur Gústafsson sem að skoraði 6 mörk, þar af nokkur stórglæsileg. Markvarslan var ekki upp á marga fiska lengi vel en Pálmar Pétursson náði sér ágætlega á strik í seinni hálfleik, varði 11 skot.

Næsti leikur FH-inga er gegn Stjörnunni í Krikanum þann 22. mars. Þann leik verða strákarnir nauðsynlega að vinna, enda skiptir hver leikur gríðarlegu máli á þessu stigi. Meira um þann leik þegar nær dregur. Áfram FH!

Mörk FH (skot): Bjarni Fritzson 12/6 (18/7), Ólafur Gústafsson 6 (12), Ólafur Guðmundsson 4 (9), Ásbjörn Friðriksson 2 (6), Örn Ingi Bjarkason 2 (7), Jón Heiðar Gunnarsson 1 (1), Sigurgeir Árni Ægisson 1 (1), H

Aðrar fréttir