Fyrstu Íslandsmeistararnir í meistaraflokki 1956

Fyrstu Íslandsmeistararnir í meistaraflokki 1956

Um sumarið var farið í fyrstu utanför í keppnisfloskks í sögu félagsins. Farið var til Danmerkur og tókst sú ferð með miklum ágætum. Á þessum árum var fátítt að íslensk félagslið legðu í slíkar ferðir og er þetta til marks um framsæknina í röðum FH.
Danmerkurferðin var fyrsta utanför nær allra leikmanna og þótti mikið ævintýr. Í Danmörku kepptu FH-ingar 6 leiki gegn sterkustu félagsliðum Danmerkur og unnu þá alla. Danir heilluðust af leikni FH-liðsins og í Fjónstíðindum sagði: “Íslensku leikmennirnir voru í sérflokki miðið við andstæðinga sína, bæði hvað varðar hraða og leikni. Þeir gera sér augljóslega ljóst að þeir eru ekki komnir hingað til skemmtidvalar heldur til að leika handknattleik og það gerðu þeir af slíkri list að unun var á að horfa.”

Heimkoman var lengi í minnum höfð. Á Reykjavíkurflugvelli tók bæjarstjóri Hafnarfjarðar á móti liðinu og færði þeim þakkir og árnaðaróskir. Blaðamenn frá öllum dagblöðum og fulltrúar íþróttahreyfingarinnar voru einnig á staðnum. Í Hafnarfirði voru þó móttökurnar innilegastar. Strengdur hafði verið borði yfir Strandgötuna frá ráðhúsinu þar sem stóð stórum stöfum Velkomnir heim. Lúðrasveit Hafnarfjarðar lék og skátar heilsuðu FH-ingum með fánaborg. Umferð var stöðvuð um miðbæinn og hundruð Hafnfirðinga tók undir árnaðaróskir bæjarstjórnar með dynjandi húrrarhópum.

Næstu árin voru FH-ingar nánast ósigrandi. Þeir urðu Íslandsmeistarar inni og úti 1957 en 1958 unnu þeir útimótið en misstu naumlega af sigri í Íslandsmótinu innanhúss með 25-24 tapi fyrir ÍR í dramtískum leik. Þar skoraði besti leikmaður FH Ragnar Jónsson löglegt mark undir lokin, skaut í innanverðan markvinkilinn og boltinn skaust út úr markinu en dómarinn dæmdi að boltinn hafi farið í utanverða stöngina og dæmdi ekki mark og þar með misstu FH-ingar af Íslandsmeistaratitlinum og töpuðu í fyrsta skipti eftir 60 leikja sigurgöngu!

FH-ingar urðu Íslandsmeistarar inni og úti 1959, 1960 og 1961. Yfirburðir FH-inga í handbolta á þessum árum voru með ólíkindum en 1960 unnu FH-ingar 6 Íslandsmeistaratitla í öllum flokkum en 1961 bættu þeir um betur og unnu Íslandsmeistaratitla í öllum flokkum utanhúss og öllum nema einum innanhúss en það var 2. flokkur karla sem átti að vera hvað öruggastur með sigur!

Næstu ár og áratugi var nær samfelld sigurganga. FH var þekkt fyrir sókndjarfan leik og mikinn hraða og leikni og lið FH á 6. og 7. áratugnum hefur verið talið besta íslenska félagslið allra tíma. Það er helst að FH-liðið 1984-1985 með Þorgils Óttar, Kristján Arason, Hans Guðmundsson, Atla Hilmarsson, Guðjón Árnason ofl góða komist með tærnar þar sem þeir gömlu höfðu hælana. 

Leikmenn eins og Ragnar Jónsson, Birgir Björnsson, Örn Hallsteinsson, Geir Hallsteinsson, Hjalti Einarsson ofl. geta allir talist með bestu handknattleiksmönnum þjóðarinnar, Geir hefur yfirleitt verið talinn besti handboltamaður Íslands allra tíma og Ragnar Jónsson ekki langt undan.

Ekki má gleyma þeim manni sem nefndur hefur verið með réttu faðir FH, Hallsteini Hinrikssyni, sem var lengstum þjálfari þessa liðs og lífið og sálin í félaginu.

Ekki nóg með það að þetta lið hafi verið afreksmenn inni á vellinum heldur hafa þeir einnig unnið ötullega fyrir FH utan vallar og það má segja að þeir séu fyrirmynd allra FH-inga og vel til fundið að heiðra þá í dag.

Ekkert félag á Íslandi á eins glæsilega sögu og FH í handbolta, það lifir enginn á fornri frægð en hinsvegar á þessi arfur að vera okkar ungu leikmönnum veganesti í framtíðina sem hefur alla burði til að vera björt.

Árangur FH-liðsins á 14 ára tímabili, frá miðjum 6. áratugnum til loka 7. áratugarins:

Íslandsmeistarar utanhúss: 14 sinnum (1956-1969)
Íslandsmeistarar innanhúss: 8 sinnum (1956, 1957, 1959, 1960, 1961, 1965, 1966, 1969)

Íslandsmeistarar FH 1956<b

Aðrar fréttir