Góður árangur hjá 5.flokki karla

Góður árangur hjá 5.flokki karla

Þeir voru spenntir drengirnir í 5. flokki karla sem héldu norður yfir
heiðar sl. föstudag, til þess að taka þátt í fyrsta móti vetrarins,
Sólarmóti KA í handknattleik. Við tefldum fram fjórum liðum á mótinu,
A, B, C1 og C2 og var árangurinn mjög góður. A-, B- og C2-liðin enduðu
öll í 4. sæti en piltarnir í C1 gerðu sér lítið fyrir og unnu mótið í
C-liðunum, sannarlega glæsilegur árangur það.

A-liðið lenti strax í erfiðleikum í riðlakeppninni þegar þeir töpuðu
fyrir Fram, en það þýddi að þeir fengu engin stig með sér upp í
milliriðlana. Því þurftu þeir að treysta á hagstæð úrslit úr öðrum
leikjum til þess að komast í úrslitaleikinn, en það gekk ekki upp og
því enduðu þeir í leiknum um 3. sætið sem tapaðist gegn Gróttu.

B-liðið var í hörkustuði á mótinu. Þeir unnu alla sína leiki í
riðlakeppninni, sem og fyrsta leikinn í milliriðlinum en það er víst
skammt stórra högga á milli í þessum bransa og eftir tap í seinni
leiknum í milliriðlinum gegn Gróttu, urðu þeir að láta sér lynda
leikinn um 3. sætið, sem var hörkuleikur og svo fór að eftir jafntefli
í venjulegum leiktíma og framlengingu, þurfti að grípa til hlutkestis,
sem var okkur ekki hagstætt að þessu sinni og 4.sætið því raunin.
Einhverjir vildu meina að í þann leik hefði sárlega vantað reynslu
aðstoðarþjálfara flokksins, Árna Stefáns, sem hefur að eigin sögn ekki
tapað hlutkesti síðan í 5.flokki, en það er önnur saga…

C1 og C2 liðin lentu í sitthvorum riðlinum á mótinu, en C2-liðið var
ansi þunnskipað fyrir mótið og því hringdum við þjálfararnir eftir
liðsauka úr 6.flokknum sem átti heldur betur eftir að skila sér. Eftir
að markmaður liðsins forfallaðist, þurfti að senda útispilara í markið
og byrjunarliðið var því skipað 3 drengjum úr 6.flokki, ásamt því að
enn einn úr flokknum sat á bekknum sem eini skiptimaðurinn. En það var
ekki að sjá að aldursmunurinn væri neitt að há liðinu, því baráttan og
leikgleðin var algjörlega í fyrirrúmi og á stundum var hrein unun að
fylgjast með drengjunum, því aðra eins baráttu hefur maður varla séð
áður í þessum flokki. Þeir komu öllum að óvörum, töpuðu aðeins einum
leik í riðlinum og komu sér í leikinn um 3. sætið sem tapaðist gegn
fyrnasterku liði KA. En piltarnir mega vel við una og nú þegar þeir
hafa séð að þeir geta þetta vel, ætlum við okkur að sjálfsögðu enn
lengra á næsta móti.

C1-liðið stal hinsvegar senunni. Þeir töpuðu ekki leik á mótinu, þrátt
fyrir að hafa engan skiptimann alla helgina og það sást strax á þeim í
fyrsta leik, í hvað stefndi. Það skipti engu þótt menn væru lamdir í
gólfið eða stoppaðir í sókn, alltaf stóðu þeir rakleitt upp aftur og
héldu áfram að berjast og spila flottan handbolta. Með þessu áframhaldi
ættu þeir að geta náð ansi langt í vetur og að sjálfsögðu á það einnig
við um allan hópinn.

Það eina sem vantar upp á núna er að drengirnir
mæti örlítið betur á æfingar og einbeiti sér betur þegar á þær er komið
og þá erum við þjálfararnir ekki í neinum vafa um það að uppskeran í
vor verði rík. Þá viljum við einnig þakka þeim foreldrum sem stóðu að ferðinni kærlega fyrir, bæði þeim sem stóðu í fararstjórninni sem og þeim sem komu norður og aðstoðuðu okkur með piltana, þið eigið mikið hrós skilið.

Þjálfarar 5. flokks karla – Sigursteinn Arndal og Árni Stefán Guðjónsson

Áfram FH!

Aðrar fréttir