Góður sigur á Haukum í Lengjubikarnum

Góður sigur á Haukum í Lengjubikarnum

Sigríður Siemsen náði forystunni  eftir u.þ.b. 5 mínútna leik með marki beint úr aukaspyrnu. Haukarnir jöfnuðu metin á 30. mínútu og náðu svo forystunni á síðustu mínútu fyrri hálfleiks nokkuð gegn gangi leiksins.
FH-stelpur komu feykilega ákveðnar til seinni hálfleiks og ekki leið á löngu þar til Valgerður Björnsdóttir hafði jafnað metin 2-2 þegar hún afgreiddi boltann viðstöðulaust yfir markmann Hauka og í netið.
FH-ingar héldu áfram að sækja og Sara Atladóttir skallaði boltann af miklu afli í slánna, niður á jörðina og þaðan í þaknetið eftir hornspyrnu og náði forystunni á 70. mínútu. Stelpurnar héldu áfram að sækja og Guðrún Björg Eggertsdóttir skoraði fjórða og síðasta mark FH eftir lipran samleik við nöfnu sína og lögfræðing hjá félagsmálaráðuneytinu Guðrúnu Sveinsdóttur sem sendi boltann hárnákvæmt á kollinn á Guðrúnu Björgu sem sneiddi boltann stöngin inn og góður 4-2 sigur staðreynd. Þess má geta að leikurinn var jómfrúarleikur nýs liðstjóra Margrétar Gauju Magnúsdóttur og er óhætt að segja að hún byrji með látum.

Það var ánægjulegt að sjá hve stelpurnar komu sterkar til seinni hálfleiks og spiluðu þá virkilega vel og sýndu mikinn styrk eftir að hafa verið undir í leikhléi. Næsti leikur í Lengjubikarnum er gegn ÍR á ÍR-velli laugardaginn 14. apríl kl. 16:00.

Lið FH: Iona Sjöfn – Bára (Eva Þórunn 46. mín), Sigríður Siemsen, Sara Atladóttir, Björg (Sóley 70.) – Guðrún Sveins, Silja, Bella (Íris 80.) , Valgerður (Dagný Lóa 80.)  – Guðrún Björg, Ingibjörg Pálma (Gerður Sif 80.)

Aðrar fréttir