Góður sigur á Skagamönnum

Góður sigur á Skagamönnum

Íslandsmeistarar FH héldu sínu striki í Pepsi-deild karla í dag er þeir lögðu Skagamenn í Krikanum, 2-1. 

Fyrri hálfleikur var fremur tíðindalítill. Einar Karl Ingvarsson átti gott skot í þverslá úr aukaspyrnu og annað hörkuskot að marki Skagamanna skömmu síðar en allt kom fyrir ekki og var markalaust í hálfleik. Í þeim síðari dró til tíðinda. Atli Guðnason átti hættulegan skalla sem hafnaði í stöng rétt áður en hinn fertugi Dean Martin kom Skagamönnum yfir í leiknum með skallamarki. Eftir mark Skagamanna gáfu FH-ingar í og voru staðráðnir í að jafna leikinn. Á 72. mínútu tókst það þegar Einar Karl átti góða sendingu á kollinn á Kristjáni Gauta Emilssyni sem skallaði að marki. Páll Gísli Jónsson, markvörður Skagamanna varði en Emil Pálsson fylgdi vel eftir og jafnaði leikinn. 

Eftir þetta voru FH-ingar líklegri, Kristján Gauti og Emil fengu báðir hættuleg færi en inn vildi boltinn ekki. Það var ekki fyrr en á 92. mínútu að sigurmarkið kom. Kristján Gauti átti magnaða sendingu innfyrir vörn Skagamanna á Atla Guðnason sem innsiglaði góðan sigur og setti sitt tólfta mark í sumar og það fjórða gegn liði ÍA.

Frábær FH-sigur raunin og FH-liðið virðist aldeilis ekki ætla að slaka á klónni þrátt fyrir að hafa landað titlinum síðastliðinn sunnudag. 

Aðrar fréttir