Grafarvogsferð til góða | Stelpurnar okkar með sinn fimmta sigur í röð

Í gærkvöldi gerðu stelpurnar okkar góða ferð í Grafarvog, þar sem þær lögðu Fjölnisstúlkur örugglega að velli. Lauk leiknum með níu marka sigri FH-liðsins, 17-26, eftir að stelpurnar höfðu leitt með 4 marka mun í hálfleik.

Segja má að leikar hafi farið hægt af stað. „Þetta er bara alveg eins og leikurinn hérna í fyrra”, heyrðist í stúkunni eftir 10 mínútna leik. Eftir grúsk í gömlum nótum kom í ljós að leikurinn í fyrra fór ekkert allt of fjörlega af stað, bara sjö mörk skoruð á fyrstu tíu. En nú í ár voru þau bara tvö. Staðan 1-1.

FH-liðið spilaði góðar, langar sóknir sem enduðu með fínustu færum en boltinn vildi ekki inn í markið heldur fékk tréverkið að finna fyrir því  á upphafsmínútum leiksins. Dröfn Haraldsdóttir hélt leiknum jöfnum með því að verja eins og hún ætti lífið að leysa í FH-markinu, 61% markvarsla í fyrri hálfleik.

FH-sóknin leggur aldrei árar í bát þótt illa gangi, eins og sannaðist gegn ÍR í síðustu umferð. Þegar fór að líða á hálfleikinn fór stelpunum að ganga betur að skora og þá losnaði um Anítu Theodórsdóttur á línunni sem veit alltaf á gott. Liðið lauk fyrri hálfleik með sterkum 6-2 kafla til að fara með fjögurra marka forystu inn í leikhlé.

Britney steig upp til muna þegar á þurfti að halda / Mynd: Brynja T.

 

Seinni hálfleikur hófst með öðrum 6-2 kafla.  Staðan orðin 17-9, FH í vil. Nú var að sigla þessu heim. Áhlaup Fjölnisliðsins voru hörð og áttu þær allavega tvo 3-0 kafla og minnkuðu muninn mest í 5 mörk. Þegar það voru tíu mínútur eftir fengu FH-stelpur á sig tvær mínútur og Fjölnisliðið í góðu færi á því að breyta þessu í spennuleik.

Karakterinn hjá stelpunum okkar er hinsvegar orðinn það sterkur að slíkt leyfist varla lengur. Þær unnu þessar síðustu mínútur 5-1 og tryggðu sér þar með níu marka sigur í Grafarvoginum, 17-26.  Markaskorið dreifðist afar vel í þessum leik, en ber þó helst að nefna í sókninni innkomu Britney Cots í fyrri hálfleik sem leiddi til þess að Fjölnisvörnin fór að liðast í sundur. Hún varð markahæst að endingu með 5 mörk.

Með sigrinum fóru stelpurnar upp í 2. sæti deildarinnar og eru þær nú með 10 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Fram U. Næsti leikur þeirra er sunnudaginn næsta, 3. nóvember, en þá mætir lið HK U í Krikann. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!
– Gimmi

Mörk FH: Britney Cots 5, Emilía Ósk Steinarsdóttir 4, Sylvía Björt Blöndal 4, Aníta Theodórsdóttir 4, Fanney Þóra Þórsdóttir 4, Ragnheiður Tómasdóttir 3, Andrea Valdimarsdóttir 1, Aþena Arna Ríkharðsdóttir 1.
Varin skot: Dröfn Haraldsdóttir 15.
Blokkin: Birna Íris Helgadóttir 4, Fanney Þóra Þórsdóttir 3, Ragnheiður Tómasdóttir 1, Aníta Theodórsdóttir 1.

Aðrar fréttir