Gróttumenn sýndu litla gestrisni

Gróttumenn sýndu litla gestrisni

Gróttumenn komu í heimsókn í Kaplakrika í kvöld og sýndu litla gestrisni – unnu öruggan og sanngjarnan sigur á okkar mönnum, 25:30. Tvö töp í tveim fyrstu leikjunum því staðreynd og betur má ef duga skal.

Framan af fyrri hálfleik var jafnræði á með liðunum; gestirnir voru ávallt fyrri til að skora en munurinn varð aldrei meiri en tvö mörk þeim í vil í hálfleiknum. FH-ingar komust aðeins einu sini yfir í öllum leiknum, 10:9, þegar 21 mínúta var liðin af leiknum en í kjölfarið kom slakur kafli og Grótta leiddi með tveimur mörkum í leikhléi, 11:13.

Í upphafi síðari hálfleiks komu FH-ingar mjög ákveðnir til leiks, skoruðu tvö fyrstu mörkin og virtust til alls líklegir. Það stóð þó ekki lengi yfir og ákveðnir Gróttumenn voru ekkert að tvínóna við hlutina og eftir 6 mínútna leik í hálfleiknum höfðu þeir náð þriggja marka forskoti, 14:17, og segja má að þeir hafi aldrei litið til baka eftir það. Reyndar héngu okkar menn í þeim en munurinn varð aldrei minni en tvö mörk og það blasti á einhvern hátt við að gestirnir væru sterkari og hreinlega betri. Á síðustu tíu mínútunum gáfu þeir svo vel í og juku muninn jafnt og þétt en mestur varð hann 7 mörk, 22:29.

Niðurstaðan getur ekki talist önnur en mikil vonbrigði og FH-ingar eru nú búnir að tapa tveimur fyrstu leikjum Íslandsmótsins. Vissulega hefur liðið leikið gegn tveimur af þeim liðum sem talin eru einna sterkust í deildinni en það á hins vegar ekki að vera þetta mikill munur á okkar liði og Gróttu og Aftureldingu, sem við töpuðum gegn í fyrsta leik. En á hinn bóginn þýðir lítið að tala um getu og styrk þegar áhuginn, viljinn og krafturinn er af skornum skammti og sú var raunin hjá FH-ingum í kvöld.

Varnarleikurinn var í molum og það var sama hvaða afbrigði var reynt, ekkert gekk upp. Gróttumenn léku sér að því hvað eftir annað að opna vörn okkar manna upp á gátt og skoruðu þeir talsvert mikið af mörkum úr hornunum og af línunni, þrátt fyrir að leika engan glansbolta. Þeir þurftu þess einfaldlega ekki því það var ekki tekið á móti þeim af neinni hörku. Það vantaði alla grimmd í varnarleikinn hjá FH; vissulega eru margir af leikmönnum liðsins ungir og sumir hverjir mjög ungir, en það er ekki nægjanleg ástæða fyrir því að hleypa andstæðingnum hvað eftir annað fram hjá sér jafnvel hann sé ekki að gera neitt sérstakt. Kjarkleysi er það orð sem mér dettur í hug þegar ég hugsa um varnarleikinn í kvöld og það þýðir lítið í meistaraflokki að urra eða í mesta lagi að glefsa; það verður að bíta og ekkert annað. Bíti menn ekki frá sér verða þeir undir og þetta lið er alltof hæfileikaríkt til þess að láta standa sig að kjarkleysi eins og raunin var einfaldlega nú.

Valur Arnarson, fyrirliði, var ekki kátur í leikslok og sagði alla baráttu hafa skort í sitt lið: “Ég er mjög óánægður með frammistöðu okkar í leiknum. Í raun og veru veit ég varla hvað skal segja eftir svona leik. Vörnin fór einfaldlega aldrei í gang hjá okkur og þeir komust trekk í trekk í gegn, fengu ógrynni af opnum færum. Slíkt er bara til þess að brjóta menn niður og við náðum okkur aldrei á strik í þessum leik, hverju svo sem um er að kenna. Við fórum reyndar illa með mörg dauðafæri og vorum oft að taka rangar ákvarðanir í sóknarleiknum. Sigur þeirra var því mjög sanngjarn. Byrjun okkar er slæm en nú þurfum við að snúa bökum saman, vinna næsta leik og koma okkur á beinu brautina, en hingað til höfum við ekki verið tilbúnir að berjast eins og hin liðin og því verðum við að breyta,” sagði fyrirliðinn Valur Arnarson.

Það er erfitt að tala um frammistöðu einstakra leikmanna FH-liðsins í þessum leik. Þeir féllu með varnarleiknum og gerðu sér þannig nánast ókleift að ná sigri. Valur lék vel framan af en missti taktinn alltof snemma og verður að sýna með áþreifanlegri og enn meira áberandi hætti að hann sé leiðtogi liðsins; reka guttana áfram með harðri hendi og sýna enga miskunn. Valur þekkir það vel að sigra, hefur landað titlum og veit vel hvernig á að gera þetta og

Aðrar fréttir