Guðmundur Karlsson hættir

Guðmundur Karlsson hættir

Guðmundur Karlsson hefur ákveðið að láta af störfum sem þjálfari meistaraflokks kvenna hjá FH.


 

Guðmundur tók við þjálfun liðsins árið 2007 og hefur stýrt því í gegnum mikið umbreytingatímabil. Á þeim tíma náði hann að skapa aukinn stöðugleika og gaf fjölmörgum ungum leikmönnum tækifæri með það að sjónarmiði að byggja upp sterkt lið til framtíðar.

 

Um ákvörðunina segir Guðmundur: “Þegar lagt var af stað með að byggja upp kvennalið FH var það sannur heiður fyrir mig að koma að því að hjálpa mínu uppeldisfélagi. Lagt var upp með metnaðarfulla áætlun sem miðaði að því að koma liðinu í fremstu röð á 3-4 árum en það hefur ekki gengið eftir. Framfarir hafa þó verið góðar og margir leikmenn komist í og leikið lykilhlutverk með yngri landsliðum Íslands. Einnig lék liðið til úrslita í Bikarkeppni HSÍ árið 2009 en stóra skrefið í átt að stöðugleika hefur ekki verið tekið. Fyrir þessu eru margar ástæður en erfið fjárhagsstaða hefur að sjálfsögðu gert þetta allt erfiðara, enda er handknattleiksdeild FH að starfa í erfiðu umhverfi.  Umgjörð og aðbúnaður meistaraflokks kvenna í FH hefur ekki verið eins og áætlanir gerðu ráð fyrir og engar auðveldar lausnir í boði. Eftir að hafa lagt allt mitt af mörkum til verkefnisins ákvað ég að stíga til hliðar í þeirri von að hægt verði að halda uppbyggingunni áfram á traustum grunni.  Áfram FH.”

 

Þorgeir Arnar Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH: “Það var ekki ósk stjórnar handknattleiksdeildar að Guðmundur léti af störfum. Margir samverkandi þættir hafa haldið aftur af því uppbyggingarstarfi sem lagt var upp með árið 2007 en Guðmundur hefur alltaf komið fram af heiðarleika og fagmennsku sem hæfir þjálfara í hans gæðaflokki. Það hefur verið afar ánægjulegt að vinna með Guðmundi og óskum við honum alls hins besta í framtíðinni, á sama tíma og við þökkum honum fyrir gott og óeigingjarnt starf undanfarin þrjú og hálft ár.”

 

Tilkynnt verður um eftirmann Guðmundar á allra næstu dögum.

Aðrar fréttir