"Hægara um að tala en í að komast"

"Hægara um að tala en í að komast"

Elvar í ham

Elvar Erlingsson mætti í betri stofuna og sat fyrir svörum fréttamanns fh.is. Elvar er hress í bragði og telur að FH liðið þurfi að sýna sínar bestu hliðar til að ná hagstæðum úrslitum gegn Stjörnunni á fimmtudag. Kappinn smellti einnig rándýrum frasa fram á sjónarsviðið. Heyrum í kappanum…

Sæll Elvar, hvað syngur í þér? Ég hef nú ekki verið talinn sterkur söngmaður, mesta lagi átt spretti á þorrablótum en annars er ég bara nokkuð sprækur!

 

Nú hefur verið að bætast smátt og smátt í hópinn allt frá sumrinu, grunnurinn verið styrktur allnokkuð og liðið orðið þéttskipað. Hvernig líst þér á liðið í dag ? Mér líst mjög vel á liðið í dag sem og áður en þessi liðsstyrkur eykur vissulega hjá okkur fjölbreytnina í vopnabúrinu.

 

Hverja telurðu möguleika okkar vera nú í deild og bikar miðað við stöðuna á liðinu t.d. í byrjun móts? Möguleikar okkar eru bara góðir þ.e.a.s. okkar bíður erfiður leikur við Val í 4 liða úrslitum bikars og þar tel ég okkur eiga jafna möguleika. Í deildinni erum við að berjast á jafnréttisgrundvelli við önnur lið og eigum ávallt góða sigurvon,  en eins og góður maður ofan af  Skaga sagði oft þá er hægara um að tala en í að komast og verðum við að halda okkur vel við efnið því við erum jú enn nýliðar í deildinni.

 

Hvernig finnst þér nýir leikmenn aðlagast liðinu og félaginu? Eru þetta allt góðir og hentugir leikmenn fyrir liðið? Þeir hafa aðlagast mjög vel enda hefðum við ekki haft áhuga á þeim nema fyrir þær sakir að þeir henta okkar liði og okkar sýn á framtíðina.

 

FH lék við Fram á fimmtudaginn var þar sem FH náði mjög góðum sigri. Þínar hugleiðingar um leikinn… Hvað skóp sigurinn að þínu mati? Að mínu mati ber að líta á alla sigra sem góða sigra þó vissulega sé spilamennskan misjöfn.  Við náðum að spila á þeim gildum sem við höfum fyrir okkur í hópnum,  við gerðum slatta af mistökum en létum þau ekki slá okkur út af laginu og héldum uppi háu hraðatempói sem er okkar leikstíll.  Aukin breidd skilaði okkur einnig miklu.

 

Nú á liðið leik gegn Stjörnunni 29. janúar. Stjarnan hefur glímt við gríðarlegt mótlæti í vetur þrátt fyrir hörkumannskap. Má ekki búast við mjög erfiðum leik þó stigataflan sýni annað?  Ég held að ég geti fullyrt að enginn leikur hjá okkur í vetur reynist okkur léttur eða auðveldur. Ég á von á Stjörnumönnum grimm sterkum og þeir munu eflaust selja sig mjög dýrt.  Við FH ingar þurfum að standa saman og sýna okkar bestu hliðar til þess að ná hagstæðum úrslitum.

 

FH.is þakkar Elvari þetta prýðisgóða viðtal og óskar honum og liðinu góðs gengis annað kvöld kl 19:30.

 

Aðrar fréttir