Hafnarfjarðarmótið – 3. leikdagur

Hafnarfjarðarmótið – 3. leikdagur

Seinni leikur lokadags Hafnarfjarðarmótsins fór fram milli liðanna tveggja sem héldu mótið í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ, FH og Hauka. FH-ingar urðu fyrir tveimur áföllum í leiknum er lykilmenn þeirra meiddust. Leikurinn var mjög jafn framan af en undir lokin innbirtu Haukar sigur á FH-ingum og tryggðu sér því 2. sætið á mótinu.

FH – Haukar 20-26 (10-11).

Leikur FH og Hauka var jafn framan af og voru varnir liðanna í aðalhlutverki allan leikinn. FH-ingar voru heppnir að vera ekki meira en einu marki undir í hálfleik, 11-10 en Sigurður Örn annar markvarða FH-liðsins skellti í lás er hann kom inná í stað Daníels Andréssonar á 20. minútu. Daníel hafði ekki fundið sig milli stanganna og Sigurður varði eins og berserkur síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks.

FH-ingar urðu fyrir miklu áfalli strax á 10. mínútu leiksins er fyrirliði liðsins, Baldvin Þorsteinsson meiddist á ökkla. Meiðslin eru ekki alvarleg og Baldvin mun geta tekið þátt í leik FH gegn Halsum HK í forkeppni Meistaradeildarinnar 2. september nk. FH-ingar misstu svo línumanninn Atla Rúnar Steinþórsson meiddan af velli í síðari hálfleik.

Haukarnir mættu miklu grimmari til leiks í síðari hálfleik og virtust hafa mun meiri áhuga á að vinna leikinn en FH-ingar. Það skilaði sér og Haukar unnu að lokum sex marka sigur, 26-20.

Varnarleikur Hauka var betri en FH-inga í leiknum og arfarslakir dómarar leiksins, þeir Arnar Sigurjónsson og Bóas Börkur Bóasson leyfðu alltof mikla hörku í leiknum og misstu tökin snemma leiks.

Mörk FH: Örn Ingi Bjarkason 6, Andri Berg Haraldsson 3, Ari Magnús Þorgeirsson 3, Ragnar Jóhannsson 2, Þorkell Magnússon 2, Atli Rúnar Steinþórsson 1, Ólafur Gústafsson 1, Hjalti Þór Pálmason 1, Sigurður Agústsson 1.

Skot varin: Sigurður Örn Arnarson 17, Daníel Andrésson 2.

Mörk Hauka: Stefán Rafn Sigurmannsson 6, Sveinn Þorgeirsson 5, Freyr Brynjarsson 4, Heimir Óli Heimisson 3, Gylfi Gylfason 2, Nemanja Malovic 2, Tjörvi Þorgeirsson 2, Einar Pétur Pétursson 1, Matthías Árni Ingimarsson 1.

Skot varin: Birkir Ívar Guðmundsson 16, Aron Rafn Eðvarðsson 1.

Frétt tekinaaf sport.is

Umfjöllun um leik Guif og Vals er einnig hægt að lesa á sport.is


Aðrar fréttir