Hafnarfjarðarmótið hafið

Hafnarfjarðarmótið hafið

Hið árlega Hafnarfjarðarmót, æfingamót sem FH og Haukar halda í sameiningu, fór af stað í kvöld með tveimur leikjum. Voru báðir leikirnir leiknir í Kaplakrika. Í fyrri leik kvöldsins mættu FH-ingar liði Vals, og fyrirfram var hægt að búast við hörkuleik. FH-ingar voru þó mun betri í leiknum og unnu að lokum öruggan 10 marka sigur, 28-18, úrslit sem aldrei voru í hættu. Leit lið FH gríðarlega vel út, samhæft varnarlega og kröftugt sóknarlega. Ólafur Guðmundsson og Ásbjörn Friðriksson voru atkvæðamestir í liði FH en Valdimar Fannar Þórsson skoraði mest fyrir Val.

Í hinum leik kvöldsins unnu nágrannar vorir í Haukum 4ra marka sigur á Akureyri í kaflaskiptum leik.

Á morgun heldur mótið áfram með tveimur leikjum, sem leiknir verða í Strandgötunni. Haukar og Valur ríða á vaðið kl. 18:00 en kl. 20:00 mætast FH-ingar og Akureyringar í leik sem verður vafalaust skemmtilegur á að horfa.

Meistaraflokkur kvenna er einnig á æfingamóti um þessar mundir, en þær taka þátt í Reykjavík Open. Leika þær í B-riðli og hefja leik á morgun kl. 17:45 í Mýrinni, Garðabæ, þar sem þær leika á móti HK. Þær eiga einnig leik seinna um kvöldið, eða kl. 19:45, þegar þær mæta feiknasterku liði Stjörnunnar.

Það er því um að gera að skella sér á leik á morgun og hita sig rækilega upp fyrir tímabilið, sem nú er skammt undan.

Áfram FH!

Aðrar fréttir