Heimaleikur í Krikanum í kvöld!

Heimaleikur í Krikanum í kvöld!

Í kvöld tekur lið FH í kvennahandboltanum á móti botnliði Víkings í Kaplakrikanum. Þar má búast við hörkuleik, enda eru FH-ingar staðráðnir í að minnka forskot Haukanna niður í 4 stig auk þess sem að Víkinga svengir án efa í sigur, enda hafa þær ekki krækt í stig það sem af er af leiktíðinni.


Stelpurnar okkar hafa staðið sig vel á þessu tímabili.

FH-stelpur koma fullar sjálfstrausts inn í leikinn eftir flottan útisigur á HK um helgina, 27-23. Þær sitja í 5. sæti deildarinnar, 6 stigum á eftir Haukum sem að eru í 4. sæti og 2 stigum á undan liði Fylkis sem að er í 6. sætinu og á reyndar leik til góða.


Víkingar kíkja í heimsókn í Krikann í kvöld.

Víkingar sitja á botni deildarinnar eins og áður sagði, stigalausar. Síðasti leikur þeirra var gegn liði Hauka en þar töpuðu þær með 28 marka mun, 39-11.

Síðasti leikur liðanna var í Víkinni þann 9. janúar síðastliðinn. Þar unnu FH-stelpur öruggan sigur, 31-16. Þar áður sigruðu FH-stelpur í Krikanum, 36-19.

Leikurinn hefst kl. 19:30 og er eins og áður sagði í Mekka handboltans í Hafnarfirði, Kaplakrikanum. Við viljum hvetja alla til að mæta og styðja stelpurnar okkar til sigurs.
Áfram FH!

Aðrar fréttir