Hökt í fyrsta leik stelpnanna okkar | FH 23 – 28 HK U

Stelpurnar okkar hófu leik í Grill 66 deildinni í gærkvöldi, þegar þær tóku á móti HK U í Kaplakrika.

FH-stelpur voru með yfirhöndina í byrjun leiks, og náðu þriggja marka forskoti í tvígang – í stöðunni 3-0 og 5-2. Leikur liðsins til að byrja með bar þess merki, að það hafði mikið sjálfstraust, og lofaði það góðu fyrir framhaldið.

Hildur skoraði fyrsta mark tímabilsins fyrir lið FH / Mynd: Brynja T.

Lið HK U hafði hins vegar ekki áhuga á leika hlutverk lambsins sem leitt var til slátrunar. Spá forráðamanna, þjálfara og fyrirliða setti Kópavogsliðið vissulega í næst neðsta sæti deildarinnar, en spilamennska liðsins í gær bendir ekki til að sú verði raunin. HK U kom til baka og jafnaði metin í 5-5, áður en það tók síðan frumkvæðið í leiknum í sínar hendur.

HK U var með 1-2ja marka forskot allt frá miðjum fyrri hálfleik og fram að leikhléi, en þegar liðin gengu til búningsherbergja leiddi Kópavogsliðið með einu marki, 12-13.

Vonir stóðu til að okkar stelpur myndu sýna styrk sinn að fullu í síðari hálfleik og endurheimta yfirhendina, sem glataðist hafði um miðjan fyrri hálfleik. Það kom hins vegar, því miður, aldrei almennilega að því. Þvert á móti bætti HK U í, og var skömmu eftir hálfleik komið með fjögurra marka forskot, 13-17. Um það leyti, á 34. mínútu nánar til tekið, fann Roland Eradze sig knúinn til að taka leikhlé og fara yfir stöðu mála á nýjan leik.

Ragnheiður lék vel í fyrsta leik sínum í hvítu treyjunni / Mynd: Brynja T.

Stelpurnar svöruðu því leikhléi með tveimur mörkum í röð og virtust vera að vinna sig aftur inn í leikinn, en lentu um hæl í 1-4 kafla sem kom HK-liðinu í mesta forskot sitt í leiknum, 5 mörk. Þannig hélt þetta áfram allt til enda. HK-stelpur héldu 3-5 marka forskoti allt þar til flautað var af, og þegar uppi var staðið unnu þær sanngjarnan 5 marka sigur, 23-28.

Eðli málsins samkvæmt var útkoma leiksins mikil vonbrigði fyrir FH-liðið. Vonast var eftir betri frammistöðu heldur en stelpurnar síðan sýndu. Það sást best á þeim sjálfum eftir leik, og skein úr hverju andliti. Að sama skapi má ekki taka neitt af HK-liðinu, sem spilaði leikinn afar vel og vann verðskuldað.

Vonbrigðin eru réttmæt, því stelpurnar geta svo mikið betur. Þær voru svekktar, því þær vissu það best sjálfar. Lítum samt á björtu hliðarnar. Þær stelpur sem bæst hafa í hópinn, líta svo sannarlega út fyrir að geta styrkt hann. Sem dæmi áttu Ragnheiður Tómasdóttir og Aníta Theodórsdóttir, sem komu til okkar úr Garðabænum, báðar tvær fínan leik. Þær skoruðu fjögur mörk hvor, og líta vel út. Britney Cots skoraði þrjú mörk, og á aðeins eftir að fara vaxandi eftir því sem líða tekur á veturinn.

Sylvía Björt Blöndal var markahæst okkar stelpna í leiknum með 5 mörk, og þar af voru þónokkur ansi falleg. Embla Jónsdóttir stýrði leiknum vel, og nokkrar þeirra sendinga sem hún átti voru ekkert nema augnakonfekt. Hvílík yfirsýn.

Fall er fararheill. Við eigum eftir að sjá þetta lið spila sig betur saman eftir því sem líða tekur á veturinn, og þá koma gæði þess almennilega í ljós. Næsti leikur er á móti Fram U í Safamýrinni næstkomandi föstudag, nánar um hann þegar nær dregur.

Við erum FH!

Mörk FH: Sylvía Björt Blöndal 5, Ragnheiður Tómasdóttir 4, Aníta Theodórsdóttir 4, Britney Cots 3, Hildur Guðjónsdóttir 2, Embla Jónsdóttir 2, Fanney Þóra Þórsdóttir 2, Diljá Sigurðardóttir 1.
Varin skot: Ástríður Þóra Viðarsdóttir Scheving 7, Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 2.

Aðrar fréttir