Hugsanir eftir FH – Elfsborg

Hugsanir eftir FH – Elfsborg

Anton Ingi Leifsson skrifar frá Kaplakrika:

Hér sit ég enn, og hugsa. Djöfull hefði verið gaman að fara áfram og allt það, en því verður ekki breytt úr þessu. Það hefði samt verið svo fáranlega gaman. 

Ég fékk þann heiður að fá að fara með liðinu út til Svíþjóðar og flytja fréttir af liðinu og öllu því sem var að gerast. Lokatölur 4-1 tap sem var allt, allt of stórt miðað við gang leiksins. Flestir héldu að þessu væru lokið því við þurftum að vinna 3-0 á heimavelli. 

Okkar drengir voru á svo allt öðru máli. Frábær fyrri hálfleikur í kvöld og áfram hélt pressan í seinni hálfleik og mark númer tvö kom. Leitin var svo að þriðja markinu sem datt ekki inn, heldur fengum við á okkur eitt mark undir lokin sem skipti litlu máli úr því sem komið var.

Karakterinn í strákunum var algerlega til fyrirmyndar og það sást hversu svekktir strákarnir voru með 2-1 sigri á einu besta liði Svíþjóðar. Það segir allt sem segja þarf. Já, liðið sem við vorum að spila við er eitt besta liðið í Svíþjóð og hefur unnið tvo titla á síðustu tveimur árum.

Taktískt leikplan þjálfarana gekk fullkomlega upp og var unun að fylgjast með liðinu. Blanda af svekkelsi/stolti/gleði streymir nú um líkamann, en þessu verður ekki breytt; hetjulega barátta okkar manna dugði ekki til.

Ég veit ekki hversu marga Svía ég hitti eftir leikinn sem hrósuðu FH-liðinu í hástert og það liggur við að þeir hefðu viljað fá bæði liðin áfram í næstu umferð. 

Ég vil þakka öllum þeim sem skelltu sér á völlinn í kvöld og studdu FH-liðið fram í rauðan dauðann. Höldum áfram að mæta á völlinn og hjálpa liðinu að sækja þann stóra hér heima! Áfram FH!

Aðrar fréttir