Hvað segir Atli?

Hvað segir Atli?

Sæll Atli! Hvernig hefurðu það?

Ég hef það bara ágætt en auðvitað hefði mér liðið betur ef við værum búnir að tryggja okkur þetta 8.sæti.

Hvernig er stemmningin í hópnum?

Stemmingin er góð, menn eru ákveðnir í að fórna sér gjörsamlega í þennan úrslitaleik sem bíður okkar.

Eru allir heilir?

Það eru einhver meiðsli en það verða allir heilir á laugardaginn, það missir enginn af svona leik.

Nú ertu væntanlega búinn að kortleggja Haukana. Hvað þurfum við að gera og hvað þurfum við að varast gegn þeim?

Við þurfum fyrst og fremst að hugsa um okkur, að reyna að ná öllu út úr okkar liði sem mögulegt er. Við þurfum að vera mjög agaðir því að þeir refsa fyrir hver mistök sem andstæðingurinn gerir. Okkar lið hefur ekki farið í marga svona úrslitaleiki en Haukarnir eru öllu vanir hvað það varðar. Við höfum sýnt það í vetur að við getum unnið hvaða lið sem er í deildinni og tapað fyrir hvaða liði sem er.

Hvað viltu segja við FH-inga sem bíða spenntir eftir leiknum?

Ég vil bara þakka stuðningsmönnunum fyrir frábæran stuðning hingað til og ég er viss um að FH-liðið á eftir að berjast fyrir lífi sínu á laugardaginn. Við erum búnir að koma okkur í mjög erfiða stöðu en við þurfum bara að taka á því. Við getum unnið þennan leik, en til þess þarf allt að ganga upp. Það verður vonandi fullt hús og við þurfum að njóta þess.

Er ekki gríðarlega mikilvægt að fá góða mætingu og stuðning í Krikann?

Stuðningurinn skiptir öllu máli, nú verðum við að standa við bakið á félaginu okkar og tryggja sæti í efstu deild að ári. Við ætlum okkur að ná þessu takmarki en til þess þurfa allir að standa saman.

Um leið og við þökkum Atla fyrir og óskum honum og strákunum góðs gengis viljum skora á alla alvöru FH-inga til að sýna nú stuðning sinn eitt skipti fyrir öll og mæta með alla stórfjölskylduna í Krikann á laugardaginn. ÁFRAM FH.

Aðrar fréttir