Hvað segir Guðmundur Marinó um Fram – FH?

Hvað segir Guðmundur Marinó um Fram – FH?

FH.is hafði samband við handboltaspekúlantinn Guðmund Marinó Ingvarsson. Guðmundur Marinó hefur líst leikjum á SportTV og er einn fremsti spekingur okkar um handblta hér á Íslandi.

FH.is ræddi við Guðmund um Fram – FH sem fer fram í N1-deild karla á morgun.

Jæja Gummi.. Hvernig líst þér á leikinn á morgun, Fram – FH?
Þetta verður hörkuleikur. Fram hefur verið á mikilli siglingu en eru þrátt fyrir það enn í neðsta sæti deildarinnar og mega vart við því að tapa fleiri stigum ætli liðið að halda sér uppi. FH hefur engan vegin haldið dampi eftir að hafa rúllað yfir Hauka í Krikanum og mega, líkt og Fram, ekki tapa fleiri stigum á tímabilinu ætli liðið að komast í úrslitakeppnina. Það verður því allt undir hjá báðum liðum og hart barist frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Stuðningsmenn Fram hafa mætt betur og betur á leiki liðsins eftir því sem liðið hefur á tímabilið og ef FH-ingar fjölmenna má búast við úrslitakeppnisstemningu í húsinu.

Hvernig hefur þér litist á FH liðið í vetur?
Liðið hefur heillað mann einn leikinn og hneykslað mann þann næsta. Það hefur vantað allan stöðugleika í liðið en það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt þar sem að margir leikmanna liðsins eru enn gjaldgengir í 2. flokk. Gæðin í liðinu eru þó það mikil að maður bjóst við meiru og býst enn við meiru þó liðið sé komið með bakið upp að veggnum fræga í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Helduru að FH liðið mæti ekki dýrvitlaust í kvöld eftir að hafa tapað síðustu þremur leikjum?
Það er eins gott. Framarar mæta dýrvitlausir til leiks með Haukamanninn Einar Jónsson við stjórnvölinn. Hann veit fátt skemmtilegra en að sigra FH og ljóst að þú færð ekkert út úr leiknum nema með því að mæta Fram með sama hugarfari og helst enn ákveðnari. FH á ekki að tapa fjórum leikjum í röð þó allir leikir í N1 deildinni séu erfiðir. Sé baráttan til staðar skila gæðin í liðinu sér.

Hvað þurfa FH-ingar að nýta sér gegn Frömurum í kvöld?
Nýta sér veikleika Fram liðsins, sem er vörnin, og ganga vel út í skytturnar í vörninni án þess þó að gleyma Haraldi á línunni sem er mjög fær í að búa sér til pláss og færi. Daníel Berg hefur hleypt miklu lífi í leik Fram með hraða sínum og hafa Framarar ekki átt í vandræðum með að skora að undanförnu. Það er því mikilvægt að vörnin smelli og markvarslan með. Þá koma auðveldu mörkin í kjölfarið. Svo verða menn líka að vera þolinmóðir. Framarar gefast aldrei upp og þetta verður barátta fram á síðustu sekúndur.
 
Með einhverjar tölur í huga?
Það verður mikið skorað, 36-35, fyrir FH og draumur Hafnfirðinga um úrslitarimmu Hafnarfjarðarliðanna lifir enn góðu lífi, þó ég sé auðvitað hlutlaus.

Aðrar fréttir