Hvað segir Orri Þórðar fyrir síðari  leikinn

Hvað segir Orri Þórðar fyrir síðari leikinn

Sæll Orri! Hvernig kemurðu af fjalli?
Eins og sauður sem hefur bitið iðgræn, safarík grös í sumarlangt.

Hvað er að frétta af strákunum í 3ja?
Allt fínt, frábærir drengir. Því miður komumst við ekki í úrslit í A-liðum, þar vantaði eitt stig upp á. Við klúðruðum okkar málum þegar við misstigum okkur gegn Fylki í síðustu viku. Það er synd því ég held að við hefðum unnið titilinn ef við hefðum komist í úrslitakeppnina.

Mál  málanna…  Nú þjálfaðir þú lið mfl. Kv. Tímabilið 2007 þegar þú tókst við liðinu á erfiðum tímapunkti.  Hvernig finnst þér málin hafa þróast  síðan þá?
Mér finnst þau hafa þróast mjög vel. Jón Þór Brandsson hefur haldið vel á öllum þráðum og sinnt þessu af elju og metnaði. Það er öflugt og gott fólk í kvennaráðinu og það er lykilatriði að það starfi áfram og fleiri áhugasamir bætist í hópinn. Við höfum farið þá leið að byggja á eigin leikmönnum og bæta aðbúnað þeirra. Mér sýnist allt stefna í rétta átt.

Hvernig leggst leikurinn gegn Eyjamönnum í þig og hvar liggja möguleikar FH í leiknum?
Mér fannst liðin svipuð að getu í Kaplakrika á laugardaginn en leikurinn var mjög slakur og ég hygg að bæði lið muni leika betur í Eyjum. Möguleikar FH felast í því að spila sterkan varnarleik, koma boltanum út á vængina og fyrir markið.  Þar mundi ég alltaf hafa Sigrúnu Ellu því hún er hættulegasti leikmaðurinn okkar, minnir á Kastilíumanninn Emilio Butrageno. Síðast en ekki síst verða stelpurnar að koma í leikinn fullar sjálfstrausts og berjast gífurlega því ef þær vinna, þá komast þær upp í Pepsi-deildina á næsta ári sem væri frábær árangur.

Hvernig líst þér á framhaldið hjá stelpunum næstu árin?
Mér líst vel á það. Það eru efnilegar stelpur að koma upp. Það er stöðugleiki í þjálfaraliðinu og umgjörðin um meistaraflokk er góð. Ég er samt ekki sammála því sem heyrist að það sé „slæmt“ fyrir okkur að komast upp í Pepsi-deildina. Ég held þvert á móti að það að spila í deild þeirra bestu mundi virka sem vítamínsprauta á allt starfið. Við ættum auðveldara með að laða að okkur góða leikmenn sem við verðum að gera og það myndi einnig auðvelda okkur að halda í okkar ungu og efnilegu leikmenn sem önnur lið eru þegar farin að bera víurnar í. Að spila í Pepsi-deildinni þýðir meiri umfjöllun, meiri áhuga og fleiri áhorfendur. Það voru um 200 manns í Kaplakrika á leik FH og ÍBV, ímyndið ykkur hvað það er miklu skemmtilegra að spila fyrir slíkan mannfjölda en örfáar hræður. Það er ekki nóg að hafa efnilegar stelpur og góða yngri flokka, félag eins og FH með þetta starf og iðkendafjölda á að vera í deild hinna bestu. Ég hef engar áhyggjur að við myndum ekki spjara okkur þar ef rétt er á málum haldið.

Aðrar fréttir