Hvít jól í Hafnarfirði 2017

Hvít jól í Hafnarfirði!

Leikur ársins fór fram í Kaplakrika í gærkvöld. Heimamenn í FH, topplið deildarinnar, tóku á móti nágrönnum sínum frá Ásvöllum í síðasta leiknum fyrir jól. Allir voru spenntir, allir voru ögn stressaðir en ég held að enginn hafi átt von á að leikurinn yrði svona góð skemmtun.

Gísli Þorgeir í árás í leiknum í gær / Mynd: Jói Long

Fyrir leikinn var FH ekki búið að vinna erkifjendurna á heimavelli í alltof langan tíma. Fyrir leikur liðanna fór fram á Ásvöllum í lok september og unnu FH-ingar hann nokkuð örugglega, en Hauka-liðið er töluvert sterkara núna en fyrir þremur mánuðum.

Fyrri hálfleikur var í járnum. Jafnt var á öllum tölum, en FH þó alltaf hálfu skrefi á undan. Markmenn beggja liða voru í ham, Ágúst náði allavega tvisvar að koma í veg fyrir að Haukar jöfnuðu og hinum megin kom Bjöggi í veg fyrir að FH-ingar næðu þriggja marka forystu. FH náði mest tveggja marka forskoti en Haukar náðu að spyrna í bakkann og jafna í 14-14 fyrir hlé. Góður fyrri hálfleikur FH-inga allt í allt, en samt var sú tilfinning ráðandi að Haukar hefðu náð að klára hann með ögn meiri krafti.

Ágúst Elí átti frábæran leik í markinu í gærkvöldi. Hér er mynd af honum með hinum helmingi markvarðarteymis landsliðsins, Björgvin Páli í Haukum. / Mynd: Jói Long

Seinni hálfleikur byrjaði skrautlega. Haukar byrjuðu með boltann, Ágúst varði skot Jóns Þorbjarnar, FH fór í hraðahlaup og Björgvin át það. Haukar komust í næstu sókn yfir í fyrsta sinn, en Gísli Þorgeir jafnaði og svo tók við hörmungin.

Eftir að staðan var 15-15, skoruðu Haukar fimm mörk í röð. Það gekk ekkert upp hjá FH, sóknir virtust vera óskipulagðar, Björgvin varði allt sem kom á hann og engu skipti hvar Haukar skutu, það rataði inn. Verst var staðan orðin 16-22 eftir að Björgvin setti boltann í tómt markið og ekki hjálpaði að áhorfendum fannst dómarinn vera að gera upp á bak á þessum kafla. Ekki ætla ég að dæma um það.

En þá byrjuðu magnaðir hlutir að gerast. Það byrjaði á því Ágúst Birgisson skoraði úr erfiðu færi. Þá hóf FH-stúkan að gjósa. Örskömmu seinna stal Gísli Þorgeir boltanum í vörninni og skoraði í autt mark. Þá byrjuðu drunurnar í stúkunni og nokkrir vel valdir áhorfendur voru komnir á fullt við að magna hana upp. Ekki versnaði stemningin þegar Haukarnir töpuðu boltanum aulalega og fógetinn sjálfur náði að skora úr hinu hraðahlaupinu sem heppnaðist. Skyndilega var glampinn kominn í augun á leikmönnum FH, og þú hefðir getað spurt hvern sem er báðum megin við völlinn – allir vissu að FH var að fara að jafna þennan leik.

Fógetinn átti sannkallaðan fyrirliðaleik / Mynd: Jói Long

Einar skoraði, svo Ísak með þrumufleyg en hann var rekinn útaf í næstu vörn. Ásbjörn hefndi fyrir það með því að jafna 22-22. Í næstu sókn komst Jón Þorbjörn inn í teig en Ágúst varði frábærlega með mjöðminni og þá gat Jakob Martin komið FH yfir í fyrsta sinn í hálfleiknum.

Tíu mínútur eftir, FH komið með forystuna og það var sirka hérna sem báðar stúkurnar komu sér á fætur og stemningin fór í hæsta gír. Adam Haukur Baumruk og Ásbjörn skoruðu tvö mörk hvor áður en Óðinn skoraði og kom FH tveimur mörkum yfir. Aftur jöfnuðu Haukar. Þá var komið að því að hlaða í sirkus leiksins, í stöðunni 26-26 kastaði Einar Rafn boltanum inn á teiginn þar sem Gísli Þorgeir kom svífandi, skall á varnarmanni Hauka, náði að grípa boltann með útréttri vinstri hendi, koma boltanum í hægri  og skora. Í flestum leikjum hefði þetta verið tilþrif leiksins en það var eitt eftir.

FH komst í 29-27 en missti boltann skelfilega tvisvar í röð og Haukar jöfnuðu þegar fimmtán sekúndur voru eftir. Heimamenn stilla upp í sókn, boltinn berst til Einar Rafns sem var ekki með neina góða sendingu, svo hann reynir skot af gólfi. Boltinn fer af Björgvin markmanni út í hægra hornið…þar sem Óðinn Þór birtist allt í einu, hirðir frákastið, stekkur inn í teiginn og vippar yfir markmann Hauka. Boltinn virtist ætla að taka heila eilífð að ferðast í fallegum boga en örskömmu áður en flautan gall söng hann í netinu. Ótrúlegur sigur staðreynd!

TF Óðinn á flugi…

…og í lendingu. Góðir farþegar, gleðileg hvít jól. / Myndir: Jói Long

Með þessum sigri er staðfest að FH verður á toppi deildarinnar þangað til í lok janúar. Liðið er búið að vinna 12 leiki, tapa tveimur og ekki gera eitt einasta jafntefli. Liðið er einnig með fáranlega markatölu, 89 mörk í plús eftir fjórtan leiki. Þessi vetur er búinn að vera geggjaður hingað til, liðið sendir einn fulltrúa í landsliðið í janúar og annan í æfingahóp. Svo byrjar Íslandsmótið aftur þann 31. janúar. Væntanlega er fólk strax farið að hlakka til, ekki annað í boði meðan svona handbolti er á dagskrá. Gleðileg hvít jól!

Við erum FH!

-Ingimar Bjarni

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 9/2, Einar Rafn Eiðsson 5, Gísli Þorgeir Kristjánsson 4, Ágúst Birgisson 3, Óðinn Þór Ríkharðsson 3, Jóhann Karl Reynisson 2, Ísak Rafnsson 2, Jakob Martin Ásgeirsson 1, Jóhann Birgir Ingvarsson 1.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson  17.

Aðrar fréttir