Inga Magnúsdóttir útnefnd heiðursfélagi í FH

Þann 26.október á 90 ára afmælishófi FH var Inga Magnúsdóttir útnefnd heiðursfélagi í FH við mikinn fögnuð viðstaddra. En hver skyldi hún vera þessi Inga Magnúsdóttir, þeirri konu sem FHingum þykir svo vænt um ?

Inga er fædd á Eskifirði 10.mars 1939, en þegar hún tengdist FH þá býr fjölskyldan á Akranesi. Þangað kemur ungur og myndarlegur Hafnfirðingur til að kenna Skagamönnum handbolta. Þetta var haustið 1958 og Inga fór á æfingu hjá þessum unga manni Birgi Björnssyni og það var ekki aftur snúið, þau giftu sig 18.apríl 1959 og fóru að búa á Sjónarhóli. Á brúðkaupsdaginn var leikur í meistaraflokki karla í Hálogalandi og Biggi skrapp og spilaði leikinn og sú saga var sögð að þeim hefði borist skeyti frá Hallsteini sem að sjálfsögðu þjálfaði FH, svohljóðandi: „ Til hamingju með daginn, leikur í kvöld, æfing á morgun.“ Seinna fluttu þau á Reykjarvíkurveg 1, sem um leið varð eins og félagsheimili fyrir handboltann í FH. Þar var fundað fyrir leiki og málin rædd og alltaf var Inga tilbúin með kaffi og meðlæti og elskulegheit, hún var eins og móðir allra leikmannanna. Þau eignuðust 3 börn Magnús 1959, Sólveigu 1961 og Laufey 1966. Öll voru þau í handboltanum og miklir FHingar.

Inga tók strax þátt í starfi Kvennadeildar FH og var formaður þar um tíma. Þær konur unnu mikið og gott starf fyrir félagið, létu m.a gera hátíðarfána félagsins. Inga hefur alltaf verið dugleg að mæta á leiki og hvetja sína menn. Hún hefur komið víða við í íþróttum, var m.a formaður Golfklúbbsins Keilis 1977-78 og margfaldur Íslandsmeistari í golfi í sínum aldursflokki og einnig með sveit Keilis og Golfklúbbs Akureyrar en þar bjuggu þau hjónin um skeið. Hún hefur hlotið gullmerki FH, ÍBH, Keilis og ÍBA. Hlutverk Ingu í FH verður aldrei fullþakkað, hún var alltaf jákvæð og tilbúin að gera það sem gera þarf til að halda hlutun gangandi. Hún á það svo sannarlega skilið að hljóta nafnbótina „Heiðursfélagi FH“

Aðrar fréttir