ÍR – FH, viðtal við Andra Berg Haraldsson

ÍR – FH, viðtal við Andra Berg Haraldsson

Jæja Andri Berg, það stefndi í tóma steypu hjá ykkur í fyrri hálfleik gegn Þór í síðasta leik, en þið höfðuð þetta að lokum. Var hálfleiksræðan hjá Atla svona kraftmikil?“Já hún var það, allaveganna nóg til að vekja okkur. Aðallega ákváðum við að byrja að spila vörn og berjast eins og menn því við vissum það að þá myndum við vinna. Við höfum bara einfaldlega ekki mætt tilbúnir í tvo síðustu leiki.”

Þórsararnir virtust oft á tíðum vera á hálfum hraða, enda sást það þegar þið náðuð hraðaupphlaupunum í gang að þá fyrst fór eitthvað að ganga. Eru hraða miðjan og hraðaupphlaupin orðin að ykkar sterkustu vopnum í dag?

“Ég er nú ekki sammála því að Þórsarnir hafi verið á hálfum hraða, þeir spila bara svona hægan bolta. Hraða miðjan og hraðaupphlaupin eru virkilega sterk vopn en aðalstyrkleiki okkar liggur samt í varnarleiknum, því þegar hann er í lagi þá eru fá lið sem standast okkur snúning og þá getum við beitt hraðaupphlaupunum eins og sást í seinni hálfleiknum á móti Þór.”

Nú sitjið þið sem stendur í 8. sætinu og á laugardaginn er “enn einn úrslitaleikurinn”, nema hvað að þessi er e.t.v. sá mikilvægasti til þessa, enda eru ÍR-ingarnir einu sæti og einu stigi á undan okkur. Í fyrri leiknum unnuð þið þá 44-40 í miklum markaleik. Hverjir eru möguleikar ykkar á laugardaginn?

“Rétt er það, þetta er klárlega lykilleikur í baráttunni um þetta 8. sæti. Möguleikar okkar á laugardaginn er mjög góðir því við erum með betra lið og ef við náum upp varnarleik og markvörslu þá fáum við ódýr mörk úr hraðaupphlaupum og þá klárum við þá ekki spurning.”

Nú ætlar handknattleiksdeildin að bjóða upp á fríar rútuferðir upp í Breiðholt á laugardaginn, en hversu mikilvægur er stuðningur áhorfenda í raun og veru. Finnið þið mikinn mun á ykkur þegar það er góð stemmning á pöllunum?

“Stuðningur áhorfenda er mjög mikilvægur og er þetta frábært framtak hjá stjórninni að vera með fríar rútuferðir á leikinn. Eitt skil ég samt ekki, af hverju Kaplakriki er eina íþróttahúsið á landinu þar sem trommur og lúðrar eru bannaðar, því það myndi virkilega hjálpa til við að auka stemminguna.”

Að lokum Andri Berg, hverjir taka HM í sumar!?

“Deutschland uber alles!”

FH.is þakka Andra Berg kærlega fyrir spjallið og um leið viljum við minna alla á rútuferðirnar á laugardaginn, en þær munu leggja af stað frá Kaplakrika kl. 13.00 og eru ókeypis. Nú er að duga eða drepast fyrir okkur FH-inga og við hreinlega verðum að fá sigur og 2 stig á laugardaginn. Því er um að gera að skella sér í gamla FH-búninginn, mæta á völlinn og styða sína menn.

ÍR – FH, laugardaginn 1. apríl kl. 14.00 í Austurbergi.

Áfram FH!

Aðrar fréttir