Ísak Óli Ólafsson er mættur í Krikann

Ísak Óli Ólafsson hefur skrifað undir samning við Fimleikafélagið út 2027. Hann kemur frá danska liðinu Esbjerg þar sem hann hefur verið síðan 2021.

Ísak Óli er uppalinn Keflvíkingur og er einmitt bróðir Sindra markmanns. Hann hefur leikið 2 A-landsliðsleiki og 36 yngri landsliðsleiki.

Það kom enginn annar klúbbur til greina

Við tókum aðeins stöðuna á Ísaki og spurðum hann afhverju hann valdi Fimleikafélagið.

„FH sem klúbbur hefur alltaf heillað mig. Þeir sýndu mikinn áhuga og kom í raun enginn annar klúbbur til greina. Aðstæðan hjá FH er sú besta á landinu að mínu mati og heillar það mikið. Svo er það þjálfarateymið sem er virkilega sterkt hjá FH og er ég spenntur að vinna með þeim.“ sagði Ísak Óli.

 

Ísak Óli Ólafsson

Hann talaði einnig um að stuðningsmenn FH ættu von á „leikmanni sem gefur alltaf 100% í alla leiki! Styrkleikar mínir liggja í einvígum, varnaleik og er ég mikill liðsmaður.“ Hann hélt svo áfram..  „Tímabilið leggst hrikalega vel í mig, við erum með sterkt lið og eigum að stefna hátt í sumar.“

Aðrar fréttir