Ísinn brotinn!

Ísinn brotinn!

Jæja, þá er hann kominn í hús, fyrsti sigurinn á þessu tímabili og náðist hann að Ásvöllum gegn Haukum 2 í kvöld. Lokatölur urðu 18:24 en staðan í hálfleik var 8:12. Alveg óhætt er að segja að sigurinn hafi verið verðskuldaður og mjög öruggur þótt reyndar okkar piltar hafi kannski verið fulllengi að slíta Haukastrákana endanlega frá sér.

Það var skarð fyrir skildi að Valur Örn Arnarson, fyrirliði, lék ekki í kvöld vegna veikinda, en strákarnir létu það ekki á sig heldur stigu upp og börðust hver fyrir annan. Þá er annar gamall og grimmur jaxl, Brynjar Geirsson, smám saman að komast í form og inn i leik liðsins og þegar það kemur styrkist liðið mikið.

En þá að leiknum sjálfur: Það var jafnræði á með liðunum framan af og lítið skorað en svo tóku FH-ingar frumkvæðið, hertu sig í vörninni og voru komnir með fjögurra marka forskot, 2:6, þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður. Þeir náðu mest fimm marka forskoti í hálfleiknum og virtust líklegir til að auka það og fara langt með að gera út um leikinn áður en dómarar leiksins flautuðu til leikhlés. Svo fór þó ekki því Haukarnir náðu að stöðva stuðið á okkur mönnum og þeir minnkuðu muninn í fjögur mörk. Maður fór því í sjoppuna í hálfleik með blendnar tilfinningar; ánægður með fjögurra marka forskotið en fannst að það hefði átt að vera öllu meira. En það er auðvitað ekki á allt kosið í þessum bransa fremur en öðrum.

Framan af síðari hálfleik má segja að svipað hafi verið uppi á teningnum; okkar menn á undan að skora en Haukarnir aldrei mjög langt á eftir og þeir náðu að minnka muninn í tvö mörk á tímabili en lengra komust þeir ekki. Þegar líða tók á síðari hálfleik kom berlega í ljós hvort liðið var betra og sterkara og okkar menn áttu í raun aldrei í neinum sérstökum vandræðum með að innbyrða sigurinn, náðu mest sjö marka forskoti. En góður 18:24 sigur hins vegar staðreynd, ísinn er brotinn, og nú er bara að líta fram á við og upp á við enda engin ástæða til annars. Strákarnir hljóta að hafa lært af tveimur fyrstu leikjunum og með hverjum leik bætist í reynslubankann.

Það verður að segjast eins og er að það var hreinlega allt annar bragur á FH-ingum í þessum leik en í leiknum gegn Gróttu þar sem þeir voru með kúkinn í buxunum svo til allan leiktímann. Nú var greinilegt að grimmdin og sigurviljinn var til staðar frá fyrstu mínútu og til þeirrar síðustu og uppskeran var eftir því.

Liðsheildin var góð, vörnin hreyfanleg en brugðið var á það ráð að taka Vigfús Gunnarsson, leikmann Hauka, úr umferð frá byrjun og svo til út allan leiktímann. Það virkaði vel því Haukaliðið var oft eins og höfuðlaus her án Vigfúsar og leituðu aðrir leikmenn alltof mikið að honum í staðinn fyrir að gera eitthvað upp á eigin spýtur. Markvarslan hjá okkur var með hreinum ágætum, en Hilmar Þór Guðmundsson var mjög stöðugur í markinu og varði átján skot. Aron Pálmarsson lék mjög vel í fyrri hálfleik, var með góðar línusendingar og var hreyfanlegur og nokkuð ógnandi á miðjunni og þá var piltur öryggið uppmálað á vítalínunni. Arons naut hins vegar ekki við nema 23 fyrstu mínúturnar því þá meiddist hann og kom ekki meira við sögu. Hann verður þó væntanlega til í slaginn fyrir næsta leik. Heiðar Örn Arnarson átti fína spretti og það sama má segja um Bjarna Á. Þórðarson, sem barðist vel og stal ófáum boltunum. Tómas Sigurbergsson kom sterkur upp í síðari hálfleik og þessum pilti fer greinilega vel að leika hraðan og ákafan handbolta. Línumaðurinn Teódór I. Pálmason lét finna vel fyrir sér og nældi sér meðal annars í þrjú vítaköst. Annars á liðið allt hrós skilið.

Þessi leikur var fjörugur, líflegur og harður, enda margir bráðungir og efnilegir leikmenn að spila og segja má að harkan og lætin í þeim hafi á tímabili verið alveg á mörkunum. Dómarar leiksins, þeir Magnús Björnsson og Ómar I. Sverrisson, áttu í hinu mesta basli með að hemja ungu gæðingana. En þótt dómararnir hafi ekki átt sinn besta dag, væntanlega sökum reynsluleysis, þá hallaði nú á

Aðrar fréttir