Íþróttakarl og íþróttakona FH

Kjör íþróttakarls og íþróttakonu FH var haldið í dag eftir þriggja ára hlé, mætingin var með miklum ágætum. Íþróttakarl FH 2022 er  Hilmar Örn Jónsson og íþróttakona FH 2022 er Maggý Lárentsínudóttir. Óskar Fimleikafélagið þeim báðum innilega til hamingju og eru þau vel að þessu komin.

Maggý Lárentsínudóttir er knattspyrnukona FH árið 2022. Maggý var í algjöru lykilhlutverki í FH liðinu sem vann Lengjudeildina sannfærandi. Hún lék í hjarta varnarinnar í liði sem fór taplaust í gegnum tímabilið og fékk einungis á sig níu mörk í 18 leikjum í Lengjudeildinni. Maggý lék alla leiki liðsins á tímabilinu, skoraði tvö mörk og var máttarstólpi í þessu frábæra liði sem tók skrefið upp í Bestu deild kvenna með glæsibrag.

Hilmar Örn Jónsson er afreksmaður frjálsíþróttadeildar FH.

Hilmar hlýtur þá sæmd fyrir sleggjukast, en hann kastaði lengst á árinu 76,33 m sem er hans næst besti árangur  í greininni. Hilmar bætti einnig Íslandsmetið í lóðkasti á árinu.

Hilmar er í 20. sæti yfir bestu sleggjukastara í Evrópu á árinu og í 28 sæti yfir bestu sleggjukastara í heimi á árinu, glæsilegur árangur hjá honum

Hilmar Örn Jónsson keppti á tveimur stórmótum á árinu, bæði á HM sem fór fram í Bandaríkjunum og var hann rétt við að komast í úrslit á því móti og síðan keppti hann í EM í Þýskalandi og tryggði sig þar á meðal 12 bestu sleggjukastara í Evrópu og náði í úrslit þar.

Hilmar hlaut 1137 stig fyrir kastið og var hann annar stigahæsti Íslendingurinn á árinu í frjálsíþróttum..

Á myndinni eru Hilmar og Guðmundur Viggósson sem tók við verðlaununum fyrir hönd Maggýjar sem komst því miður ekki.

Aðrar fréttir