Íþróttakona og íþróttakarl FH 2021

María Rún Gunnlaugsdóttir er Íþróttakona FH árið 2021.

 

María Rún varð margfaldur Íslandsmeistari á árinu; sigraði í 60 m grindahlaupi, hástökki og kúluvarpi á Meistaramóti Íslands innanhúss og einnig í fimmtarþraut á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum innanhúss. Þá var hún í sigurliði FH á Bikarmeistaramóti FRÍ utanhúss.

 

María Rún er landsliðskona í frjálsíþróttum og keppti á Evrópubikar landsliða 2. deild, í Stara Zagora í Búlgaríu í maí 2021, bæði í spjótkasti og 4×100 m boðhlaupi.

 

María hljóp á tímanum 8,59 sek í 60 m grindahlaupi, hennar besta tíma, á Meistaramóti Íslands innanhúss í mars 2021. Hún hlaut 1030 stig fyrir hlaupið, sem er frábær árangur.

 

“Innanhússtímabilið gekk mjög vel og ég var komin í mitt besta form. Ég varð fjórfaldur Íslandsmeistari og árangurinn í fimmtarþraut var sá annar besti frá upphafi hér á Íslandi. Ég keppti því miður takmarkað í sumar vegna meiðsla en er þeim mun ákveðnari fyrir næsta ár og stefni á að koma sterk inn í innanhússtimabilið núna eftir áramót,” sagði María, en hún er stödd erlendis við æfingar og tók faðir hennar, Gunnlaugur Júlíusson, við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.

 

Þess má til gamans geta að Gunnlaugur er hlaupari sjálfur og hefur hlaupið fjölmörg svokölluð “ofurhlaup”. Lengst hefur hann hlaupið rúmlega 400 km (10 maraþon), sem hann gerði á Englandi árið 2013.

 

 

Hilmar Örn Jónsson er Íþróttakarl FH árið 2021.

 

Hilmar Örn keppir í sleggjukasti og kastaði lengst 74,88 m á árinu. Hann varð Íslandsmeistari utanhúss í sleggjukasti og endaði einnig í fyrsta sæti í greininni á Bikarkeppni FRÍ utanhúss með sigurliði FH í keppninni.

 

Hilmar Örn hlaut 1115 stig fyrir kast sitt í sleggjukasti. Hann situr  í 50. sæti á World Athletics (WA) með 1134 stig og í  37. sæti á EAA listanum með 1115 stig.

 

“Ég er nokkuð ánægður með árangur minn á árinu. Ég keppti á sterkum mótum í Slóveníu, Ungverjalandi, og Króatíu og gekk ágætlega, og auðvitað gaman að vinna Bikarkeppnina. Ég verð líka að nefna sérstaklega að á frjálsíþróttavellinum í Kaplakrika reis nýtt kastbúr á árinu og við kastararnir fögnum því. Það gjörbyltir æfingum og keppnum fyrir okkur,” segir Hilmar, og bætir við að hátindur ársins hafi þó verið fæðing frumburðarins, Arndísar Vöku.

 

“Á næsta ári er bæði EM og HM og ég stefni á að ná lágmarki á þau mót. Til þess þarf ég að kasta 77,50 metra, 40 sentímetrum lengra en núgildandi Íslandsmet mitt. Fyrstu mótin mín verða Norðurlandamót innanhúss í febrúar og Evrópubikar í kastgreinum í mars.”

 

Við óskum Maríu Rún og Hilmari Erni hjartanlega til hamingju með glæsilegan árangur og nafnbótina Íþróttafólk FH, og um leið frjálsíþróttafólk FH, árið 2021.

 

Jafnframt óskum við Ágústi Birgissyni og Hrafnhildi Önnu Þorleifsdóttur, handknattleiksfólki FH, og Jónatan Inga Jónssyni og Sunnevu Hrönn Sigurvinsdóttur, knattspyrnufólki FH, til hamingju með árangurinn á árinu.

 

Við hlökkum til að fylgjast með öllu okkar afreksfólki á komandi ári og óskum FH-ingum öllum gleðilegs og gæfuríks árs 2022!

 

Aðrar fréttir