Jafnt í Grodno – Góðir möguleikar að komast áfram

Jafnt í Grodno – Góðir möguleikar að komast áfram

FH gerði 1-1 jafntefli við Neman Grodno frá Hvíta-Rússlandi í fyrri leik liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar. Leikurinn fór fram ytra en seinni leikurinn verður eftir viku í Kaplakrika og eru FH-ingar í fínum málum fyrir þann leik. 

FH-ingar voru talsvert betri í fyrri hálfleik en ekkert mark var skorað fyrir hlé. Kristján Gauti Emilsson og Ólafur Páll Snorrason fengu bestu færi fyrri hálfleiksins en náðu ekki að hitta rammann. 

Á 55. mínútu tók FH forystuna verðskuldað. Kristján Gauti, sem var gríðarlega ógnandi í leiknum og fór oft illa með varnarmenn Neman, átti þá stórglæsilegt skot beint úr aukaspyrnu sem fór í stöngina og inn. 

Heimamenn fóru að sækja meira eftir að hafa lent undir og uppskáru mark. Belgíski hægri bakvörðurinn Jonathan Hendrickx sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir FH fékk dæmt á sig víti á 65. mínútu og fékk einnig rautt spjald. 

Neman Grodno jafnaði úr vítinu. Kristján Gauti hélt áfram að skapa sér færi þrátt fyrir að FH-ingar voru manni færri. Hann kom sér í dauðafæri en átti slappt skot sem markvörður heimamanna varði. Á 75. mínútu fékk hann annað gott færi en skaut þá yfir. 

FH var nálægt því að lenda undir þegar um tíu mínútur voru til leiksloka en Róbert Örn Óskarsson gerði vel og varði. 

1-1 urðu úrslitin, fín úrslit fyrir FH þó liðið hafi vissulega verið nær því að taka sigur í kvöld en heimamenn. Það sást á leiknum að Hafnarfjarðarliðið er einfaldlega betra og ætti að klára þetta verkefni eftir viku.

Umfjöllun fengin með góðfúslegu leyfi frá Fótbolta.net.

Aðrar fréttir