Jafntefli á Kópavogsvelli

Jafntefli á Kópavogsvelli

Húfa, vettlingar og gúmmítúttur voru nauðsynlegar í dag þar sem það var frekar dökkt yfir höfuðborgarsvæðinu þennan þriðja leikdag á HM.

Það þurfti Angólamenn í vígahug gegn Portúgölum til þess að bægja  FH TV nafninu af Sýn, en Sýn hefur sýnt alla leiki FH liðsins í beinni útsendingu fram að leiknum í kvöld. Það voru um 1000 manns sem voru viðstaddir leikinn sem var nokkuð kaflaskiptur.

Fyrri hálfleikurinn í dag var vægast sagt hundleiðinlegur. Blikar lágu til baka og spiluðu þéttan varnarleik með Marel Baldvinsson einan í framlínunni. Þegar liðið vann boltann var svo þrumað á Marel. FH-ingar stjórnuðu leiknum en náðu ekki að skapa sér nema eitt færi í hálfleiknum þegar Guðmundur Sævarsson sendi ágætan bolta utan af kanti sem Tryggvi skallaði í stöngina.

FH liðið átti í þónokkrum vandræðum með að opna þéttan múr blikanna. Spilið gekk allt of hægt fyrir sig og illa gekk að opna vængina til þess að koma boltanum fyrir markið. Það var svo á lokasekúndum hálfleikssins að Blikar fengu hornspyrnu sem Daði kýldi slysalega í eigið mark. Vissulega voru þetta leiðinleg misstök hjá Daða en það er óskiljanlegt að tveir varnarmenn sem stóðu á línunni skulu ekki hafa náð að hreinsa boltann í burtu.

Leikur FH-inga var mun betri í seinni hálfleik. Boltinn gekk betur manna á milli og við vorum að komast betur upp í hornin til þess að gefa boltann fyrir. Óli Jóh setti Hermann Alberts inn fyrir Baldur Bett og breytti leikskipulaginu úr 4-3-3/4-5-1 leikerfinu í gamla góða 4-4-2. Gárungarnir í stúkunni voru margir sáttir við þá ráðstöfun því yfirburðir FH-inga á miðjunni voru það miklir að ekki þurfti 3 miðjumenn á svæðinu. Það var svo eftir góða sókn að Ólafur Páll komst upp að endamörkum og gaf góða sendingu fyrir á Tryggva Guðmundsson sem skoraði jöfnunarmarkið. Tryggvi getur þó ekki rifið mikið kjaft við morgunverðarborðið í fyrramálið þar sem sonur hans, Guðmundur Andri, fór hamförum fyrir framan mark andstæðinganna á árlegu Actavismóti 7.flokks og skoraði yfir 10 mörk í morgun!!!

FH-ingum óx ásmegin við þetta mark Tryggva. Liðið var líklegt til þess að bæta við marki og Davíð Þór fékk dauðafæri sem hann fékk þó ekki að klára þar sem Egill dómari stoppaði leikinn vegna höfðumeiðsla eins leikmanna Breiðabliks. Undirritaður ber virðingu fyrir knattspyrnureglunum og finnst eðiliegt að leik sé frestað um nokkrar mínútur þegar gert er að höfuðmeiðslum leikmanna en mér finnst þó nokkuð gróft að stoppa leik þegar annað liðið er eitt á móti markverði og ekki munar nema hámark 3-5 sekúndum hvenær leikurinn stoppar.

Sem betur fer reyndust áverkar blikans minniháttar og hann kláraði leikinn fyrir liðið.

Leiknum lyktaði svo með 1-1 jafntefli þar sem fátt markvert gerðist eftir þetta fyrir utan það að Guðmundur Sævarsson fékk sína aðra áminningu og var rekinn útaf. Báðar áminningarnar voru vafasamar og lýsir það meira en mörgum rituðum orðum að Gummi kvartaði yfir báðum spjöldunum, það segir sína sögu.

Aðrar fréttir