Jafntefli á móti Keflavík

Jafntefli á móti Keflavík

FH og Keflavík mættust í dag í flottu veðri á Kaplakrikavelli. Fyrir leik voru FH með 33 stig í fyrsta sæti á meðan Keflavík voru í 5 sæti með 19 stig. Með sigri í dag næðu FH-ingar 15 stiga forskoti í allavega einn sólarhring.

Það fyrsta markverða sem gerðist í leiknum kom á 3 mínútu þegar Matthías Vilhjálmsson fékk boltann á kantinum, gaf fyrir og Björn Daníel Sverrisson skallaði rétt yfir mark Keflvíkinga. Á 5 mínútu átti Atli Guðnason skot rétt framhjá, hann fékk boltann eftir sendingu frá Alexander Söderlund sem fékk boltann inn fyrir vörn Keflvíkinga. Strax í næstu sókn átti Davíð Þór Viðarsson skot framhjá. Á 12 mínútu fengu FH-ingar aukaspyrnu á miðjum vallarhelming Keflvíkinga, Matthías Vilhjálmsson kom með fastan bolta fyrir og Davíð Þór Viðarsson skallaði boltann framhjá.

Það munaði litlu á 14 mínútu, Tryggvi Guðmunds með hornspyrnu, Davíð Þór skallaði hann áfram, þar sem Atli Guðna náði góðum skalla á Lasse í markinu. Tryggvi með aðra hornspyrnu á 22 mínútu, á nærstöngina þar sem Tommy Nielsen skallaði boltann rétt yfir slánna. Á 23 mínútu voru FH óheppnir, Viktor Örn keyrði upp vinstri kantinn, gaf boltann fyrir og Alex Söderlund kom skoti á markið í einn Keflvíking en Lasse náði að verja vel. Fyrsta færi Keflvíkinga kom á 24 mínútu þegar þeir fengu aukaspyrnu utan af kanti, Símun Samuelsen sendi hann fyrir en beint í fangið á Daða.

FH náði ekki að brjóta ísinn á 25 mínútu, Tryggvi með enn eina hornspyrnuna, lár bolti á nærstöngina, Söderlund stangar boltann með flugskalla, hárfínt framhjá stönginni. Stórsókn hjá Keflavík á 36 mínútu sem endaði með því að einn leikmaður Keflavíkur skaut rétt yfir. Keflavík komust yfir á 41 mínútu, gegn gangi leiksins. Þeir fengu aukaspyrnu, 25 metra frá marki FH, Haukur Ingi tók hana inn í teiginn þar sem Guðjón Árni Antoníusson kom og stangaði boltann inn, 0-1 fyrir gestina. Gestirnir leiddu í hálfleik, gegn gangi leiksins, FH áttu að vera búnir að skora nokkur mörk en Keflavík náðu að vinna sig inn í leikinn seinasta korterið.

Seinni Hálfleikur

Fyrsta færið í seinni hálfleiknum fengu FH-ingar, Matthías Guðmundsson fékk sendingu inn fyrir vörn Keflvíkinga, var kominn inn í teiginn og átti skot en beint á Lasse, hann náði boltanum aftur en línuvörðurinn dæmdi brot á Matthías. Á 58 mínútu jöfnuðu FH-ingar, verðskuldað miðað við gang leiksins, Tryggvi tók enn eina aukaspyrnuna og Davíð Þór Viðarsson skallaði boltann í fjærhornið, 1-1. á 63 mínútu fengu FH gott færi, Björn Daníel og Matthías Guðmundsson spiluðu vel saman áður en Matti kom með sendingu á Tryggva sem skallaði boltann en Lasse varði vel.

Á 71 mínútu voru FH óheppnir, Matthías Guðmundsson fékk boltann á kantinum, gaf fyrir þar sem Atli Guðna stökk yfir Guðjón Árna og skallaði í skeytina. Lasse bjargaði Keflavík á 72 mínútu, Björn Daníel átti gott skot rétt fyrir utan teiginn, sem stefndi í hornið en Lasse varði frábærlega í horn. FH komust yfir á 75 mínútu, enn og aftur kom Tryggvi með magnaða hornspyrnu og nú var það Atli Guðnason sem skallaði í mark Keflavíkur, Lasse átti ekki séns, hornspyrnur Tryggva í leiknum voru búnar að vera frábærarar og ávallt stafaði ógn af þeim.

FH fengu víti á 85 mínútu, Atli Guðna tók hornspyrnu sem fór yfir alla nema Matthías Guðmundsson, Einar Orri sem var nýkominn inná sparkaði hann niður, Matthías Vilhjálmsson tók vítið en það var arfaslakt og beint á markið og Lasse varði það auðveldlega og staðan því enn 2-1. Keflavík jöfnuðu á 89 mínútu þegar þeir keyrðu í gegnum allan völlinn, FH-ingar voru bara áhorfendur, frábær sókn hjá Keflavík sem lauk með því að Magnús Þorsteinsson jafnaði. Niðurstaða leiksins jafntefli, FH hljóta að vera svekktir, sóttu meira í leiknum en Keflavík voru skynsamir, vörðust vel og með flottar skyndisóknir.

Byrjunarlið FH: Daði Lárusson, Matthías Vilhjálmsson, Sverrir Garðarsson, Tommy Nielsen, Viktor Örn Guðmundsson, Davíð Þór Viðarsson, Tryggvi Guðmundsson (Hákon Atli Hallfreðsson 78′)

Aðrar fréttir