Jafntefli í æsispennandi leik í Safamýrinni

Jafntefli í æsispennandi leik í Safamýrinni

Í kvöld hófst N1-deild karla á nýjan leik eftir langt vetrarhlé, en þá sóttu FH-ingar Framara heim í íþróttahúsið við Safamýri í Reykjavík. Mátti þar búast við jöfnum og spennandi leik, enda liðin tvö í sætum 2-3 í deildinni. Sú varð raunin, hart var barist og var leikurinn stál í stál frá upphafi til enda.


Óli Guðmunds og Halldór Jóhann (á mynd) börðust grimmilega í Safamýrinni

Bæði lið mættu grimm til leiks og voru jöfn á öllum tölum lengi framan af. Sóknarleikurinn var hraður og skoruðu liðin fyrst um sinn að vild, að svo virtist.

En um miðjan fyrri hálfleik gerðu FH-ingar sig seka um ansi mörg tæknimistök í sóknarleiknum sem olli því að Framarar byrjuðu að skríða fram úr og náðu mest þriggja marka forystu, 10-7. En þá skelltu FH-ingar í lás, vörnin virkaði vel og Pálmar Pétursson varði vel í markinu. FH-ingar breyttu stöðunni úr 10-7 í 13-14, og stóðu leikar þannig í hálfleik.


Ásbjörn fór á kostum í leiknum í kvöld – hann og Ólafur Guðmundsson
skoruðu 21 mark af 26 mörkum FH-liðsins í kvöld.

Í seinni hálfleik var jafnt á öllum tölum. Liðin skiptust á að hafa yfirhöndina, en Framarar voru með yfirhöndina á lokamínútum leiksins. Þegar mínúta var eftir af leiknum voru Framarar yfir, 26-25. FH-ingar héldu í sókn og Ólafur Guðmundsson skoraði vægast sagt frábært mark og jafnaði þar með leikinn, 26-26. Framarar áttu síðustu sókn leiksins en náðu ekki að skora og því lauk leiknum með    26-26 jafntefli.

Leikur FH-inga í kvöld var heilt yfir nokkuð góður, sér í lagi ef tekið er tillit til þeirrar staðreyndar að nokkrir leikmenn liðsins léku laskaðir líkamlega séð, þar á meðal Ólafur Guðmundsson – en hann skoraði 12 mörk þrátt fyrir meiðslin. Liðið var baráttuglatt og kom alltaf til baka eftir slæma kafla. Ekki skal gleyma því að Fram er sterkt lið með sterkan heimavöll, og því gott að ná stigi þar.

Í FH-liðinu stóðu Ólafur Guðmundsson og Ásbjörn Friðriksson upp úr, en þeir skoruðu 21 af 26 mörkum FH-inga í leiknum (Ólafur 12 en Ásbjörn 9). Næstur þar á eftir kom Baldvin Þorsteinsson með 2 mörk, en hann stóð sig einnig vel í vörn FH-liðsins í kvöld. Pálmar átti sterka innkomu í markinu og varði 13 skot, þar af eitt vítakast.

Næsti leikur FH-liðsins er næstkomandi fimmtudag, 10. febrúar, en þá koma Valsmenn í heimsókn í Krikann. Það verður vafalaust erfiður leikur, enda Valur með vel mannað lið sem getur á góðum degi unnið hvaða lið sem er í deildinni. Þar að auki hafa þeir verið að koma til eftir slaka byrjun á deildarkeppninni. Nánar um þann leik síðar.

Við erum FH!

Aðrar fréttir