Jafntefli í Eyjum

Jafntefli í Eyjum

Íslandsmeistarar FH léku í gær næstsíðasta leik sinn í Pepsi-deild karla í ár, á útivelli gegn ÍBV. Nokkrar breytingar voru á byrjunarliði FH. Aldurforsetarnir Freyr Bjarnason, Gunnleifur Gunnleifsson og Bjarki Gunnlaugsson voru hvíldir og í þeirra stað komu inn Guðmann Þórisson, Róbert Örn Óskarsson og Kristján Gauti Emilsson en sá síðastnefndi fór reyndar út af á 7. mínútu vegna meiðsla.

Markalaust var í hálfleik en Þórarinn Ingi Valdimarsson kom ÍBV í 1-0 á 57. mínútu. Skömmu síðar varð Ólafur Páll Snorrason fyrir því óláni að gera sjálfsmark og Vestmannaeyingar því með tveggja marka forystu. FH-ingar sýndu þá mikinn karakter eins og oft áður í sumar. Björn Daníel Sverrisson minnkaði muninn eftir sendingu frá Óla Palla og gerði sitt níunda mark í sumar. Á 86. mínútu jafnaði svo Albert Brynjar Ingason metin eftir aðra frábæra sókn FH-liðsins og aðra stoðsendingu frá Óla Palla. 2-2 niðurstaðan í hörkuleik tveggja efstu liða deildarinnar.

Lokaumferð Pepsi-deildarinnar fer fram næsta laugardag, þann 29. september. Þá mæta FH-ingar Valsmönnum í Kaplakrika kl. 14.00 og verður mikið um dýrðir í Krikanum. Sjálfur bikarinn fer á loft í lok leiks og um kvöldið verður lokahóf og Meistaraball. Augljóst að allir FH-ingar þurfa að taka daginn frá sem fyrst.

Aðrar fréttir