Jón Ragnar og Friðrik Dór hita upp í kvöld

Jón Ragnar og Friðrik Dór hita upp í kvöld

Í kvöld ætla bræðurnir Jón Ragnar og Friðrik Dór Jónssynir að koma FH ingum í rétta gírinn fyrir leik FH og Hauka. Þó svo að þeir hafi ekki náð sömu frægð og bræðurnir í The Boys náðu í Noregi á síðasta áratug síðustu aldar þá er frægðin skammt undan hjá þeim bræðrum. Jón Ragnar túraði um helstu borgir Bandaríkjanna síðastliðið haust og tróð upp við góðar undirtekktir og Friðrik Dór hefur átt lagið “hlið við hlið” á vinsældarlistunum hér heima í allan vetur. Bræðurnir munu því bjóða upp á sjóðheita upphitun fyrir leik, bæði upp í tengibyggingu og á parketinu sjálfu.

FH.IS setti sig í samband við þá bræður og spurði þá út í kvöldið.

   

Verður þetta ekki skemmtun fyrir allan peninginn í kvöld?
Jú, það er klárt mál. Þið gætuð rukkað 12 kúlur og þetta yrði ennþá hverrar krónu virði.



Hverju mega áhorfendur búast við frá ykkur bræðrum í kvöld?
FH-ingar mega búast við gríðarlegum skemmtilegheitum. Við ætlum að sprengja hressleikaskalann og það er vonandi að það nái að smitast inn í áhorfendaskarann. Við munum taka gömlu FH-hittarana sem Guðmundur og félagar í Randver gerðu ódauðlega hér í denn í bland við einhver ánægjuleg lög samtímans. Og það verður engin pólitík í okkur og því mun það ekki fara á milli mála með hvoru liðinu við höldum.

Hvernig fer leikurinn í kvöld og hvað kemur til með að skilja liðin að?

32-30 fyrir heimamenn. Pálmar mun loka markinu í síðari hálfleik og þá mun Óli Gúst verða kallaður Óli rúst eftir þennan leik… Óli Guðmunds mun svo auðvitað sýna hvers vegna hann var valinn í EM-hópinn. Bjarni Fritzson verður með 100% vítanýtingu og þá mun Benedikt Reynir koma á óvart með 4 mörk úr hraðaupphlaupum. Svo býr FH liðið svo vel að eiga feðga í sínum röðum – það er örugglega sterkasta leynivopn FH-liðsins.

Viljið þið koma einhverju á framfæri til stuðningsmanna FH fyrir kvöldið?
Við biðjum fólk að mæta snemma til að vera komið í gírinn þegar leikurinn hefst. Allir þurfa að mæta í hvítu og þegar fólk er að ganga út úr dyrunum hjá sér og tekur lyklana, símann og veskið með sér þarf það að muna líka að skilja ekki góða skapið eftir heima. Láta svo vel í sér heyra því það mun skila sér í fallegum FH sigri. Áfram FH.

Aðrar fréttir