Jónas, Silja og Eygerður voru öll að keppa

Jónas, Silja og Eygerður voru öll að keppa

Jónas Hlynur Hallgrímsson keppti á Pac-10, stóru móti í Los Angeles þar sem bestu íþróttamenn háskólanna á vesturströndinni etja kappi. Jónas keppti í spjótkasti og byrjaði á því að kasta 61,38m í forkeppninni og með þeim árangri komst hann örugglega í úrslit. Í úrslitunum kastaði hann spjótinu síðan 65,09m og endaði í 5.sæti sem er mjög góður árangur og ætti að fleyta honum áleiðis á NCAA sem er lokamót háskólanna í Bandaríkjunum og er gríðarsterkt, þetta er jafnframt bæting á besta árangri Jónasar.

Silja Úlfarsdóttir keppti á móti í Atlanta í 400m grindarhlaupi, mjög sterku hlaupi þar sem hún keppti m.a. við Söndru Glover og Kim Batten sem báðar hafa unnið verðlaun á ólympíuleikum og heimsmeistaramótum. Silja ætlaði sér að reyna við lágmarkið á HM í sumar sem er 56,50sek en því miður tókst það ekki að þessu sinni. Silja sagðist hafa misst taktinn á 6.grind og náði sér ekki á strik eftir það og endaði á 57,31sek og varð 6. í hlaupinu.

Eygerður Inga Hafþórsdóttir millivegalengdahlaupari virðist aðeins vera að vakna til lífsins en hún keppti á SEC svæðismeistaramótinu í 1500m hlaupi. Hún hljóp á 4:39,17 og var aðeins tveimur sætum frá því að komast í úrslit. Eygerður hljóp á sama móti í fyrra á tímanum 4;34,60 sem er hennar besti árangur en hún hefur smátt og smátt verið að auka æfingaálag sitt eftir meiðsli sem hafa verið að stríða henni í vetur.

Sigrún Fjeldsted keppir síðan í dag í spjótkasti á SEC mótinu.

Aðrar fréttir