Jónatan Ingi seldur til Sogndal

FH og Sogndal hafa komist að samkomulagi um að síðarnefnda félagið kaupi kantmanninn knáa Jónatan Inga Jónsson. Jóntan Ingi er uppalinn FH-ingur og var valinn leikmaður ársins hjá FH í fyrra þar sem hann skoraði sjö mörk og átti 9 stoðsendingar í efstu deild. Við kveðjum Jónatan með söknuði en erum þess fullvissir að hann muni heilla stuðningsmenn Sogndal með hraða sínum og leikni. Takk í bili Jónatan og gangi þér vel!

Jónatan Ingi Jónsson: „Að taka þessa stóru ákvörðun hefur verið virkilega erfitt og á ég virkilega eftir að sakna FH. Það sem hefur gert þessa ákvörðun svona erfiða er að mér finnst FH vera á flottum stað núna, liðið sterkt og líklegt til þess að gera frábæra hluti á þessu tímabili. En eftir að hafa hugsað málið vel, talað við mína nánustu og Sogndal menn þá finnst mér þetta vera spennandi tækifæri og rétt skref fyrir mig á þessum tímapunkti. Eins og flestir vita er ég uppalinn FH-ingur og á félaginu og stuðingsmönnum mikið að þakka. Ég kveð FH með miklum söknuði í bili og vona að ég fái að klæðast þessari fallegu treyju aftur síðar. Ég hlakka til að horfa á liðið í sumar og verð stuðningsmaður nr. 1. Áfram FH!“

 

Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála: „Það er að sjálfsögðu erfitt að sjá á eftir einum af okkar bestu leikmönnum. Jónatan var okkar besti leikmaður í fyrra og við vorum farnir að hlakka til að sjá hann byggja ofan á það á komandi tímabili. En þrátt fyrir að það sé erfitt að sjá á eftir honum þá er líka mjög auðvelt að samgleðjast þessum frábæra dreng sem fær nú aftur tækifæri erlendis. Ég er viss um að þetta sé byrjunin á flottum ferli hjá honum á erlendri grundu, hæfileikarnir eru svo sannarlega til staðar. Við sem félag getum líka verið stolt af því að undanfarið ár höfum við selt þrjá leikmenn erlendis, tveir af þeim uppaldir hjá okkur og sá þriðji gekk til liðs við okkur á 2. flokks aldri. Stefna félagsins er skýr, við ætlum okkur að vera í fremstu röð ásamt því að búa til enn fleiri leikmenn eins og Jónatan, Hörð Inga og Þóri sem eiga möguleikann á því að komast að hjá liðum erlendis.“

Aðrar fréttir