Keila og fótbolti hjá 6.flokk karla

Keila og fótbolti hjá 6.flokk karla

Strákarnir í 6.fl.kk hittust í gær fyrir leik FH og Fylkis í
Landsbankadeildinni og fóru í keilu. Tímabilið hefur verið frábært hjá
strákunum og því fannst öllum sem koma að starfi flokksins tilvalið að
hittast, hafa gaman saman og styðja svo strákana í meistaraflokknum í
spennandi lokaumferð mótsins. Strákarnir skemmtu sér gríðarlega vel í
keilunni og sýndu snilldartakta á parketi keiluhallarinnar. Strákarnir
höfðu fengið fyrsta flokks leiðsögn um hvernig nauðsynlegt er að beyta
sér með keilukúluna frá reyndum þjálfurum flokksins, sem eru
hálfatvinnumenn í íþróttinni


Gleði og ánægja var ríkjandi hjá strákunum og var gaman að fylgjast með þeim og merkilegt hve góðir þeir voru. Þjálfarar flokksins komu þó ekki til þess að skemmta sér. Þeir voru komnir til að keppa innbyrgðist og var skipt í tvö lið en fjórir þjálfarar eru í flokknum. Skipt var í eldri/yngri eða aðalþjálfara lið og aðstoðarþjálfara lið. Verðlaunin voru afar einföld, það lið sem myndi vinna myndi fá starfið sem aðalþjálfarar næsta ár og tapliðið myndi vera þeim til aðstoðar. Kári og Vignir, aðstoðarþjálfararnir, sáu sér leik á borði og ætluðu klárlega að stela stöðunni af Jóni Páli og Krissa. Undirbúningur þeirra fólst í áhorfi af keilu á youtube á föstudagskvöld á meðan Jón Páll og Krissi sátu saman í rólegheitum og horfðu á útsvar með rauðvín og osta á kantinum. Aðeins var rætt um keilumyndina the big lebowski og taktíkin var ákveðin. Hún var einföld, fá fleiri stig en youtube kynslóðin og beita andlegum yfirburðum okkar til hins ýtrasta.

 

Aðalþjálfararnir hittumst svo og horfðu á leik Liverpool og everton og fengu sér te og rist áður en haldið var í höllina. Þar voru aðstoðarþjálfararnir mættir og voru þeir óvenju fölir í framan, greinilega stressaðari og spennustigið sennielega of hátt. Farið var á braut 16 og leikar hófust þannig að Jón Páll fékk 3 stig úr fyrsta ramma. Krissi fékk 9 og liðið því með samtals 12 sig úr fyrsta ramma gegn 24 frá þeim yngri.

Reynsluleysi Kára og Vignis kom þarna strax í ljós. Háðsglósurnar sem gengu yfir aðalþjálfarana voru slíkar að hækka þurfti í tónlistinni svo að óharðnaðir strákarnir myndu ekki læra að beita tungu sinni á eins ósiðlegan hátt og aðstoðarþjálfateymið. Líkja má keilu við maraþon en ekki spretthlaup. Spilaðir eru 10 rammar og 300 stig í pottinum. Það kom líka í ljós að betra er að láta verkin tala og halda einbeitingu því í næstu tveimur römmum fékk Jón Páll tvær fellur og Krissi tvær feykjur, aðra þeirra eftir að hafa fengið verstu glennu sem hægt er að fá í keilu.

Í rólegheitum yfirkeiluðu aðalþjálfararnir ungu aðstoðarþjálfarana með glæsilegum leik og voru útsendarar Lærlinganna og Þrastanna komnir á svæðið. Samningur á borðinu – veisla. Miðað framgöngu aðstoðarþjálfarana þá er það anger management aðferð að hætti Jack Nicholson sem bíður enda þessir drengir í töluverðum vandræðum með unglingsskap sitt.

Lokastaðan var sú að Jón Páll og Krissi fengu 248 stigum gegn AÐEINS 196 stigum Vignis og Kára. 196 stig er alveg ótrúlega lélegur árangur en stigin 248 sem sigurvegararnir fengu eru rándýrt prógramm !

 

Restin af deginum var svo bara veisla ….

Aðrar fréttir