Kjörinn endir á handboltaárinu 2016 | FH deildarbikarmeistari eftir stórsigur!

Lið FH varð í fyrradag deildarbikarmeistari í karlaflokki eftir öruggan sigur á Aftureldingu, 32-20. Strákarnir áttu afar flottan leik frá upphafi til enda og var sigurinn aldrei í hættu. Var þetta síðasti leikur liðsins fyrir áramót, og gefur hann góð fyrirheit fyrir komandi handboltaári.

Deildarbikarmeistarar 2016.

Deildarbikarmeistarar 2016.

Fyrir úrslitaleikinn á Nesinu höfðu FH unnið Mosfellinga einu sinni í síðustu sjö leikjum (fyrir utan Hafnarfjarðarbikarinn) og hafa leikir liðanna oftar en ekki verið æsispennandi. Lið Aftureldingar  sló okkur út úr úrslitakeppninni í fyrra með einu marki í hvorum leik, vann með einu marki í fyrri leik liðanna í yfirstandandi deildarkeppni og stálu svo jafntefli í Krikanum.

Það varð aldeilis breyting á í fyrradag. FH-ingar léku á als oddi í fyrri hálfleik og á sama tíma gekk ekkert upp frá Mosfellingum. FH vörninn er góð að staðaldri, hún hefur jafnvel verið mjög góð oft í vetur. En á eðlilegum degi fær hún fleiri en sex mörk á sig í fyrri hálfleik. Kannski átta? Þegar strákarnir voru komnir með sjö marka forskot um miðjan fyrri hálfleik var leikurinn í raun búinn. Liðsmenn Aftureldingar reyndu hvað þeir gátu en náðu aldrei að hleypa spennu í leikinn.

Seinni hálfleikur var einnig góður að hálfu okkar manna, þó Halldór Jóhann hafi viljað meina eftir leik að okkar menn ættu mun meira inni. Hálfleikurinn vannst “bara” með þrem mörkum. Það var gaman að fylgjast með baráttugleðinni í hvítklædda liðinu. Í hvert sinn sem hitt liðið náði að skora voru menn gjörsamlega brjálaðir, og þá var öllum mörkum FH-liðsins fagnað líkt og munurinn væri ekki nema eitt mark eða svo. Ef eitthvað er hægt að taka úr leiknum, er það að menn eru að æfast í að halda fókus allan leikinn, nokkuð sem hefur vantað í leik liðsins og mun nýtast því vel eftir áramót.

Staðan í Krikanum

Eftir leikinn fengu okkar menn að grípa um bikar í fyrsta sinn í fimm ár. Það voru margir í liðinu að vinna sína fyrstu alvöru keppni og frábært að menn séu að komnir með sigurbragð í munninn. Að vinna titla er það sem þetta allt saman snýst um, og það er ekki fræðilegur að það líði aftur fimm ár þar til að sá næsti kemur í hús.

Það hefur verið mikill stígandi í liðinu í haust. Þegar liðið tapaði illa fyrir Gróttu um miðjan septembermánuð og Ásbjörn meiddist var ekki laust við bölsýni hjá stuðningsmönnum liðsins. Liðið svaraði því á hárréttan hátt. Þó að liðið sé búið að tapa fimm leikjum í haust er það búið að spila betur með hverjum leiknum og eru núna farnir að spila hörkuhandbolta. Aðeins eitt lið er með betri markatölu en FH og aðeins tvö lið með betri stigasöfnun. Þau eiga það bæði sameiginlegt að hafa þegar tekið svakalega sigurhrinu, fimm til átta sigurleiki í röð. Það verður forvitnilegt að sjá hvort að þau nái að halda því áfram á nýju ári og hvort okkar menn nái að leika það eftir.

Þetta FH lið er langt frá því að vera fullklárað, þeir eiga nóg verk eftir óunnið. En það snýst líka allt um að toppa á réttum tíma. Það vinnst ekkert í október og FH hefur mannskap til að berjast um alla titla þegar vora tekur. Til þess að þeir vinnist þarf liðið að bæta sig á báðum endum vallarins, en það er styttra í að þetta lið teljist hreint út sagt frábært en margan grunar.

Kvennalið FH hefur spilað mjög vel það sem af er vetri og komið mörgum á óvart. Þar eru innanborðs gríðarlega metnaðarfullar stelpur sem leggja hart að sér við æfingar. Liðið byrjaði sérstaklega vel á tímabilinu og náði mjög góðum úrslitum. Undanfarnar vikur hefur liðið átt í smá vandræðum vegna meiðsla lykilmanna en samt sem áður er liðið á góðum stað og aðeins þremur stigum frá efsta sætinu. Deildin er mjög jöfn og allir leikir eru erfiðir. Margar stelpur liðsins eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki og gert það með stakri prýði.

Stelpurnar eiga, ólíkt strákunum, kappleiki framundan í janúarmánuði. Í fyrsta leik eftir áramót mætir lið Aftureldingar í Krikann. Liðin hafa þegar mæst einu sinni í deildinni á tímabilinu, en stelpurnar okkar unnu öruggan 7 marka sigur þegar liðin mættust að Varmá í október.

Leikur FH og Aftureldingar fer fram miðvikudaginn 11. janúar, og hefst hann kl. 19:30. Nánar um hann þegar nær dregur!

Það stefnir allt í skemmtilegt vor í Kaplakrika. Það hafa verið yfir 1500 manns á leik tvisvar nú þegar, stemningin er góð og umgjörðin flott. Einn titill kominn í hús, stelpurnar í bullandi toppbaráttu og fá lið sem eiga jafn mikið inni og strákarnir okkar. Gleðilegt ár FH-ingar, hlökkum til að sjá ykkur öll á pöllunum á nýju ári!

-Ingimar Bjarni

Aðrar fréttir