Kristján Flóki í FH – Skrifar undir 3ja ára samning

Kristján Flóki í FH – Skrifar undir 3ja ára samning

Kristján Flóki Finnbogason er genginn í raðir FH, en Kristján Flóki skrifaði undir þriggja ára samning við uppeldisfélag sitt í dag. Þessi tvítugi framherji hefur undanfarin tvö ár verið í röðum FC Kaupmannahöfn, en hann gekk til liðsins frá FH sumarið 2013. 

Í Danmörku hefur Kristján verið að spila með vara- og unglingaliði FCK, en hann hefur raðað inn mörkum. Hann varð meðal annars markahæsti leikmaður unglingaliðs félagsins á síðustu leiktíð, en einnig hefur hann spilað með FCK í Evrópukeppni unglingaliða þar sem strákurinn ungi spilaði meðal annars við unglingalið Real Madrid, Barcelona og Juventus.

„Við FH-ingar erum gríðarlega ánægðir með fá til okkar Kristján Flóka sem er uppalinn leikmaður hjá FH. Hann mun styrkja hópinn og gefa okkur nýja vídd í sóknarleiknum. Við ætlumst til mikils af honum,“ segir Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, himinlifandi með nýjasta leikmann Fimleikafélagsins. 

Kristján hefur spilað tvo leiki í Íslandsmóti fyrir FH, en hann lék einn leik 2012 og einn 2013. Hann hefur leikið 13 U17 ára landsliðsleiki og skorað í þeim tvö mörk. Einnig hefur hann spilað 18 U19 ára landsliðsleiki, en í þeim hefur hann skorað sex mörk.

Hann mun svo að öllum líkindum spila sinn fyrsta U21 ára landsleik á fimmtudaginn þegar Ísland mætir Rúmeníu ytra. 

Aðrar fréttir