Kristján Flóki: Mikilvægt að það sé samkeppni

Kristján Flóki: Mikilvægt að það sé samkeppni

Kristján Flóki Finnbogason skrifaði í síðustu viku undir þriggja ára samning við FH, en Kristján Flóki er að snúa aftur heim úr atvinnumennsku. Hann er fæddur 1995 og hefur leikið með stórliði FCK undanfarin tvö ár.

„Það er frábært að vera kominn heim aftur og ennþá betra að vera kominn heim í uppeldisfélagið,” voru fyrstu viðbrögð Kristjáns Flóka þegar FH.is heyrði í honum.

„Það sem heillaði mig mest er að þetta er auðvitað uppeldisklúbburinn. Liðið stefnir alltaf á það að vinna allt það sem í boði er og fara eins langt og hægt er í Evrópukeppni. Hérna í Kaplakrika eru kunnulegar aðstæður fyrir mig, en þessi aðstæða og þjálfun er sú besta að mínu mati,” en Kristján er ekki hræddur við samkeppnina í FH-liðinu.

Kristján hefur spilað tvo leiki í Íslandsmóti fyrir FH, en hann lék einn leik 2012 og einn 2013. Hann hefur leikið 13 U17 ára landsliðsleiki og skorað í þeim tvö mörk. Einnig hefur hann spilað 18 U19 ára landsliðsleiki, en í þeim hefur hann skorað sex mörk. Hann spilaði sinn fyrsta U21-árs landsleik á fimmtudaginn þegar hann spilaði nánast allan leikinn í 3-0 tapi gegn Rúmeníu. 

„Það er mikilvægt að það sé samkeppni í hópnum til að halda mönnum á tánum og það er einnig gott að hafa góða breidd til þess að menn sem koma af bekknum séu í stakkbúnir til að takast á við þau verkefni þegar einhver meiðist eða slíkt.”

„Mér fannst ég bæta mig sem leikmaður úti, en ég þroskaðist einnig mikið. Mér fannst ég þroskast sem leikmaður á flestum sviðum fótboltans. Þjálfunin var góð úti og ég spilaði marga leiki gegn frábærum liðum,” en framherjinn spilaði leiki með unglingaliðið félagsins gegn liðum á borð við Juventus, Real Madrid, Barcelona. 

„Mér finnst kominn tími til þess að FH vinni tvennuna og ætla ég að gera allt sem í valdi mínu stendur til að hjálpa til við það, en ég mun aldrei gleyma því 2004 þegar við unnum fyrsta titilinn. Velgengnin hefur verið mikil síðan og við ætlum að halda henni gangandi áfram.”

„FH hefur alltaf átt frábæra stuðningsmenn og vonandi verða þessir dyggu stuðningsmenn duglegir að mæta á völlinn í sumar og hvetja okkur til dáða. Áfram FH,” voru lokaorð Kristjáns Flóka áður en hann hélt aftur í sólina í Danmörku, en Kristján flytur heim á allra næstu dögum. 

Aðrar fréttir