Leikur 1: Strákarnir ruddu sér leið til sigurs | FH 1 – 0 UMFA

Þetta var ekki flottasti sigur sem við höfum séð í vetur, en staðan er engu að síður 1-0 fyrir FH. Halldór Jóhann sagði eftir leik í viðtali að þetta hefði verið dæmigerður fyrsti leikur í svona rimmu, mikil barátta, kannski á kostnað handboltans. Í raun skiptir það engu máli hvernig svona leikir vinnast, tvíframlengdir leikir sem vinnast á lokaaugnablikinu með marki frá markmanni þvert yfir völlinn, telja jafn mikið og tuttugu marka sigrar. 1-0, það er það sem skiptir máli.

Mynd: Jói Long

Mynd: Jói Long

Það var fjölmennt báðum megin í kvöld og trommusveitin hélt upp stuðinu allan tímann. Eftir að ljósasýningunni lauk fór leikurinn af stað, kannski full hægt. Varnarleikur beggja liða var flottur, en FH náði fljótlega forystunni þökk sé flottu hornaspili. Af fyrstu sex mörkum liðsins voru 5 annað hvort úr horninu eða vítum sem unnust af hornamanni. FH náði tveggja marka forystu og næstu tíu mínútur skiptust liðin á að skora, en markmenn beggja liða vilja líklega gleyma þessum hálfleik.

Arnar Freyr átti góðan leik í vörn og sókn, hér skorar hann eitt fimm marka sinna.

Arnar Freyr átti góðan leik í vörn og sókn, hér skorar hann eitt fimm marka sinna.

Þegar korter var búið kom maður leiksins inná í sóknina. Gísli Þorgeir stimplaði sig inn með sex mörkum það sem eftir lifði hálfleiksins. Þau voru í öllum regnbogans litum, af gólfinu, úr gegnumbrotum eða með því að stökkva einfaldlega upp og dúndra yfir höfðinu hærri varnarmenn Aftureldingar.

Gísli Þorgeir átti frábæra innkomu í leiknum í gær / Mynd: Jói Long

Gísli Þorgeir átti frábæra innkomu í leiknum í gær / Mynd: Jói Long

Undir lok fyrri hálfleiks tóku Mosfellingar við sér og náðu með hörku og baráttu að minnka muninn úr fjórum í eitt. Þeir héldu svo uppteknum hætti og komust yfir í upphafi síðari hálfleiks. Það voru Ágúst Birgisson og Einar Rafn sem stigu upp i byrjun um það leyti og komu okkur aftur yfir.

Næstu tuttugu mínútur voru æsispennandi. FH hélt forystunni, einhvern veginn. Aftur og aftur lak boltinn inn hjá okkar mönnum. Þegar fimm mínútur voru eftir fengu Mosfellingar tækifæri á að jafna þegar þeir komust inn í sendingu. En okkar menn brunuðu til baka og stoppuðu hraðaupphlaupið með því að trufla manninn í að taka tvígrip. Þegar tvær voru eftir flaug sending frá okkar mönnum útaf, Afturelding komst fram en sending frá þeim rataði á Einar Rafn og leikmaður Aftureldingar braut heimskulega. 1:30 eftir, okkar menn einum fleiri og í sókn. Það ætlaði ekki að ganga að drepa leikinn, gestirnir tóku leikhlé og fóru einum færri í uppstilta sókn. En vörnin hélt og þegar Ernir hljóp á Óðin og dæmdur var ruðningur var sigur loksins tryggður. Frábær baráttusigur í höfn (lokatölur 28-27) og staðan 1-0, FH aðeins tveim sigrum frá úrslitum Íslandsmótsins.

VIÐ ERUM FH!

-Ingimar Bjarni

Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 7/3, Gísli Þorgeir Kristjánsson 7, Arnar Freyr Ársælsson 5, Ágúst Birgisson 4, Óðinn Þór Ríkharðsson 3, Ásbjörn Friðriksson 2/2.

Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 8/1, Birkir Fannar Bragason 2.

Aðrar fréttir