Lokahóf yngriflokka í knattspyrnu

 

Lokahóf yngri flokka FH var haldið þann 10. september sl. en það markar bæði lok síðasta tímabils en um leið upphafið á nýju tímabili. Að venju var margt um manninn á lokhófinu þennan dag en athöfnin er haldin fyrir iðkendur í 5., 6., 7. og 8. flokki auk þess sem aðstandendur þeirra fjölmenna jafnan í Kaplakrikann með krökkunum, enda rótsterkt Kaplakaffi í boði fyrir fullorðna fólkið en pizza og svaladrykkur fyrir hina yngri.

Þjálfarar allra flokka fóru stuttlega yfir tímabilið, auk þess sem allir iðkendur fengu glæsilega FH-húfu sem á eflaust eftir að ylja í Risa-kuldanum á komandi vetri. Húfurnar eru gjöf frá íþrótta- og styrktarsjóði barna Hrafnkells Kristjánssonar, íþróttafréttamanns, sem lést langt fyrir aldur fram en hann æfði og lék með FH um árabil.

Að vanda fengu FH-ingar ársins í 5. flokki karla og kvenna veglegan bikar til varðveislu næsta árið en þjálfarar þessara flokka velja þann FH-ing sem sýnt hefur mestar framfarir og ástundun á árinu.

Í kvennaflokki var það Elísa Lana Sigurjónsdóttir sem fékk bikarinn að þessu sinni en bikarinn er gefinn af meistaraflokki FH árið 1972 sem varð fyrsti Íslandsmeistari í kvennaflokki á Íslandsmóti á vegum KSÍ. Í karlaflokki var það Andri Klausen sem hreppti hnossið en bikarinn sem hann fékk að launum er gefinn af hjónunum Guðmundi Árna Stefánssyni og Jónu Dóru Karlsdóttur til minningar um syni sína Brynjar Frey og Fannar Karl sem létust árið 1985.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var gleðin ríkjandi á lokahófinu og öllum gestum var síðan boðið á leik hjá FH í Pesi-deild karla.

Aðrar fréttir