LUV-leikur í Krikanum á föstudag – Allir á völlinn

LUV-leikur í Krikanum á föstudag – Allir á völlinn

Valsmenn koma í heimsókn í Kaplakrikann á föstudag í stórleik tíunda umferðar. Leikurinn hefst klukkan 19:15 í Mekka knattspyrnunnar, Kaplakrika og verður mikið húllumhæ í kringum leikinn. 

FH og Valur hafa marga hildina háð í gegnum tíðina og frá árinu 2000 hafa liðin spilað 40 leiki í öllum keppnum. FH hefur unnið 22, Valur unnið 13 og 5 þeirra hafa farið jafntefli. Markatalan er því skiljanlega FH í hag, 75-53. Valsmenn hafa þó ekki unnið á Kaplakrikavelli síðan árið 2007 og vonandi verður áframhald á því.

Eins og flestir vita tróna okkar menn á toppnum í Pepsi-deildinni með 21 stig. Valsmenn sitja í sjötta sæti deildarinnar með fimmtán stig, en þeir hafa unnið fjóra leiki, tapað tveimur og gert þrjú jafntefli. Enginn afgerandi markaskorun hefur verið í liði Vals, en markahæstu menn þeirra eru með tvö mörk. Þeir eru alls fjórir talsins. 

Leikið er þétt þessa daganna og nú reynir fyrst á hópinn. Eftir Vals-leikinn er svo Evrópuleikur á fimmtudeginum á eftir, leikur gegn Stjörnunni á sunnudegi í deildinni og svo útileikur gegn Glenavan á fimmtudeginum.

Opnað verður fyrir grillið um 17:30 og hægt verður að fá sér hamborgara og eitthvað kalt að drekka með á dúndurtilboði. Halli og Heiðar spila fyrir gesti um klukkan 18:00 og Friðrik Dór mætir einnig á svæðið og tekur lagið. 

Í hálfleik verður svo dreginn út iPhone í boði Macland, en Logi Þór, sonur Hermanns heitir Valgarðarssonar, verður úti á vellinum og dregur hann út hver verður svo heppinn að eignast símann.

Mikilvægi leiksins á föstudaginn er gífurlegt og nú þurfa FH-ingar að flykkjast á völlinn og styðja okkar menn. Einnig minnum við á að skráning í Bakhjarla er í fullum gangi og hægt er að skrá sig á leiknum. Fjölmennum á völlinn og ekki bara mæta, heldur styðja okkar menn að krafti og láta í sér heyra!

Aðrar fréttir