Markvarslan varð FH að falli

Markvarslan varð FH að falli

Annað tap okkar FH-inga í röð í deildinni í handbolta leit dagsins ljós í gærkvöldi. Þá mættum við á Seltjarnarnesið og andstæðingarnir, Grótta, sem við töpuðum líka fyrir í haust, skoruðu einu marki meira en við. Lokatölur urðu 28:27 en staðan í hálfleik var 13:14. Þrátt fyrir tapið í gærkvöldi sýndu menn frábæran karakter; mættu grimmir og einbeittir til leiks eftir útreiðina á móti Aftureldingu. Strákarnir börðust sem lið, fyrir hvern annan og það er svo sannarlega jákvætt mál.

Vörnin góð en markvarslan ekki

FH-ingar spiluðu 6/0 vörn allan tíman sem var að virka vel á móti Gróttumönnum. Tvíeykið Ólafur Heimisson og Gunnlaugur Garðarsson vann vel saman í miðjublokkinni og lét finna vel fyrir sér, svona eins og á að gera. Hefði Hilmar Guðmundsson, markmaður, varið léleg skot að utan frá leikmönnum Gróttu hefðum við landað sigri með sannfærandi hætti, lítill vafi á því.

Eins og áður hefur komið fram er Hilmar góður markvörður og detti hann í stuð getur hann algjörlega lokað markinu. En misjafn er hann og verður að vinna í jafnvæginu á milli þess að vera frábær og lélegur – finna jafnvægislínuna, ef svo mætti að orði komast. Hilmar virkar svolítið skaplaus og hann verður að láta samherja sína vita miklu betur af sér. Nú er um að gera fyrir Hilmar að nýta jólafríið vel og koma sem nýr maður til leiks þegar seinni hluti tímabilsins hefst. Það er mjög mikilvægt fyrir FH-liðið í heild sinni og Hilmar verður þá bara að æfa meira en aðrir og sýna það og sanna í eitt skipti fyrir öll að hann er markvörður sem á heima í úrvalsdeild. Strákurinn getur þetta allt – en hann verður að vilja það!

Fjölbreyttur sóknarleikur og leikgleði

Sóknarleikurinn var allt að því frábær; liðið var að skapa sér góð færi enda fór saman fjölbreytni og mikil hreyfanleiki.

Guðni Kristinsson var góður í sóknarleiknum, grimmur, ákveðinn og ósérhlífinn leikmaður sem smitaði út frá sér baráttu, drífandi strákur. Verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.

Fyrirliðinn Valur Arnarson var frábær í þessum leik og steig upp sem sannur fyrirliði. Hann var drífandi í sóknarleiknum og hætti aldrei að sækja og hreinlega geislaði af leikgleði. Eftir slakan leik gegn Aftureldingu sýndi Valur úr hverju hann er gerður. Það sýnir styrk og karakter að rífa sig upp svo um munar eftir slakan leik eins og Valur gerði nú. Þegar hann leikur vel og fer fyrir sínum mönnum er FH-liðið í góðum málum

Heiðar Arnarson valdi í upphafi leiks nokkur léleg færi sem voru varin eða fóru framhjá. En þetta lagaðist hjá honum þegar á leikinn leið og hann fór að spila meira fyrir liðið. Í kjölfarið var líka allt annað að sjá til hans. Heiðar steig upp og var að draga vagninn og það er það sem við viljum sjá hann gera enda býr margt í honum.

Þurfum ekki að kvíða framtíðinni

Í haust tapaði FH tveimur fyrstu leikjunum í deildinni, gegn Aftureldingu og Gróttu og það sama hefur nú gerst í annarri umferð. Eftir tvö fyrstu töpin reif liðið sig upp og margir góðir sigrar fylgdu í kjölfarið og liðið fór að finna sig æ betur með hverjum leik. Eftir töpin tvö núna er ekkert sem segir að við getum ekki á nýjan leik snúið blaðinu við. Það er svo margt sem strákarnir hafa lært í vetur og það mun skila sér með áþreifanlegum hætti eftir áramót – ég er klár á því enda búa miklir hæfileikar í þessu liði. FH þarf svo sannarlega ekki að kvíða framtíðinni ef menn leggja sig svona fram eins og þeir gerðu í leiknum í gærkvöldi. Liðið virðist vera að læra af mistökum sínum, ósigrum og öðrum skakkaföllum. Haldi þeir áfram á þeirri braut mun uppskeran verða ríkuleg. .

Miðvikudagur 6. desember 2006, Seltjarnarnes.

Grótta 28 (13) – FH 27 (14)

Mörk FH: Valur Arnarson 12/6, Heiðar Arnarson 4, Gunnlaugur Garðarsson 4, Guðni Kristinsson 3, Guðjón Helgason 2, Árni Guðjónsson 1, Ólafur H

Aðrar fréttir