Með bakið upp við þúsund Hafnfirðinga vegg | Tryggjum okkur oddaleik í kvöld!

Það er hálf erfitt að rifja upp leiki eins og þennan á Selfossi á þriðjudaginn. Stemningin í húsinu var svakaleg, hver og einn einasti Hafnfirðingur söng og hrópaði nánast allan leikinn og þegar maður lítur til baka man maður bara tilfinningarnar. Tilfinninguna fram á síðustu mínútuna að þetta væri alveg að koma. Óstjórnarlegan pirring yfir að alltaf þegar strákarnir gátu komist yfir var það stöngin út eða klaufaleg mistök sem gáfu Selfoss boltann. Stoltið yfir því að strákarnir gæfust ekki upp eftir að hafa verið komnir í hörmulega stöðu sex mörkum undir eftir tuttugu mínútna leik. Leikurinn kristallaðist í því hvernig strákarnir brunuðu í sókn þegar það voru fimmtán sekúndur eftir og FH þremur mörkum undir, þessir gæjar hætta aldrei.

Leikurinn tapaðist samt og gerði það í raun í fyrri hálfleik. Það er ólýsanlega erfitt að vera að elta allan leikinn, vera aftur og aftur við það að komast yfir en klikka einhvern veginn. Umræðan eftir leik var fyrst og fremst um hversu æðislega frábærlega yndislega geggjaðir Selfyssingarnir voru, það hefði mátt halda að þeir hefðu unnið leikinn með tíu mörkum. Held að Hafnfirðingar séu almennt ósammála þeirri greiningu og nú er komið að því að rífa vindinn aftur úr seglinu hjá þeim Ölfusingum.

Það eru fjölda margar spurningar fyrir þennan leik. Verða óstöðugir markmenn Selfoss jafn góðir og á þriðjudaginn eða jafn lélegir og síðast þegar þeir komu í Krikann? Hversu brjálaður mætir Arnar Freyr til leiks eftir að hafa átt erfitt uppdráttar á Selfossi? Verður það Ási eða Einar eða Gísli sem ákveður að hlaða í stórleik í sókninni og skora tíu með tíu stoðsendingar ofan á? Hvernig munu strákarnir okkar tækla þessa blessuðu framliggjandi vörn sem er búin að reynast þeim erfið í vetur? Verður einhver búinn að minna Einar Sverrisson á að hann er ekki svona góður og strákarnir okkar ná loks að hafa hemil á honum?

Nú er tími til að vera með læti! / Mynd: Jói Long

Gildi heimavallarins hefur sjaldan verið skýrara en í þessari rimmu hingað til. Bæði lið sækja kraft sinn til áhorfenda og það er alveg ljóst að Selfyssingum líður lang best í þessar 700 manna gryfju sinni. En Kaplakriki er allt annað dýr. Orðrómurinn er sá að Selfyssingar ætli að ferja um það bil alla íbúa bæjarins yfir heiðina. Sem er náttúrulega bara frábært, því á móti þeim mun vera stútfull stúka af FH-ingum. Sömu FH-ingum og studdu liðið í Evrópuleikjunum í haust, sömu FH-ingum og görguðu strákana í gang gegn Haukum og Val og fögnuðu flautumörkunum eins og óðir menn. Sömu FH-ingum og klæjar í lófana að ná titlinum fræga aftur heim. Ekki áhorfendur heldur stuðningsmenn, sem eru til í að öskra liðið áfram frá því að upphitun byrjar og þangað til flautar til leiksloka. Við erum búin að sjá ótrúlegan fjölda flottra leikja í vetur og nú er komin tími á að bæta en einum glæstri sigri í viðbót.

Leikirnir þrír milli Selfoss og FH eru búnir að vera veisla fyrir áhorfendur, æsispennandi og á köflum hefur verið spilaður stórfenglegur handbolti. Í leiknum í Kaplakrika höfðu okkar menn yfirhöndina allan leikinn en á Selfossi hafa liðin verið hnífjöfn og hlutirnir bara dottið aðeins meira með Selfoss. Bakið hjá strákunum okkar er komið upp við veginn fræga, nú dugar ekkert nema tveir sigrar til að komast í úrslit. En veggurinn frægi er stúkan í Kaplakrika þar sem þúsund Hafnfirðingar ætla að standa í kvöld og styðja þá til sigurs.

Við erum FH! / Mynd: Jói Long

Gerðu sjálfum þér greiða. Aflýstu matarboðinu og sparaðu þér uppvaskið, fáðu þér borgara í Krikanum fyrir leik og drekktu í þig stemninguna. Fáðu þér smá söngsafa ef þess þarf og mættu inn í sal um leið og hurðin opnar. Vertu með frá fyrstu mínútu, stuðningsmaður ekki áhorfandi. Það er engin ástæða fyrir bölsýni fyrir þennan leik, þetta verður einfaldlega veisla!

VIÐ ERUM FH!

-Ingimar Bjarni

Aðrar fréttir