Mikilvægur FH-sigur í Safamýrinni

Mikilvægur FH-sigur í Safamýrinni

Leikmenn FH unnu feikilega mikilvægan sigur í dag er þeir unnu Framara í Safamýrinni, 28-33. Fyrirfram mátti búast við spennandi leik, enda liðin í 2-3. sæti að mætast og mikið í húfi. Framarar höfðu tapað 3 leikjum í röð fyrir leikinn og mátti því búast við þeim grimmum, enda mega lið varla við svo slæmum taphrinum þegar verið er að spila upp á sæti í úrslitakeppninni í lok móts. FH-ingar sáu til þess að sú taphrina héldi áfram og komu sér á sama tíma vel fyrir í 2. sæti deildarinnar.


Ásbjörn átti góðan leik að vanda – hann skoraði 8 mörk.

Sá sæmilegi fjöldi af áhorfendum sem mættur var í Safamýrina í dag mátti bíða í heilar 5 mínútur eftir fyrsta marki leiksins, en það skoruðu FH-ingar í fjórðu sókn liðsins. Varnir liðanna voru vel á tánum og markvarslan eftir því. Daníel Andrésson í marki FH var t.a.m. kominn með fjögur varin skot á þessum tíma.

Jafnræði liðanna hélt áfram út fyrri hálfleikinn, munurinn á liðunum var aldrei meiri en tvö mörk en oftast var staðan jöfn. FH-ingar voru á köflum með yfirhöndina, ekki síst þökk sé góðri markvörslu Daníels Andréssonar – en hann varði 12 skot í seinni hálfleik. Það dugði þó ekki, Framarar náðu að klína inn einu marki í lok hálfleiksins og fóru því inn í hálfleik með eins marks forskot – staðan 15-14 fyrir Framara.


Ólafur Guðmundsson þurfti að yfirgefa völlinn meiddur í seinni hálfleik.

Framarar komu að manni sýndist mun grimmari til leiks í seinni hálfleik og náðu á tveimur mínútum að skora 3 mörk og auka forskot sitt úr einu marki í fjögur mörk (18-14). Ekki var laust við að undirritaður væri skelkaður á þeim tímapunkti, enda slæmt að missa Framara langt fram úr sér.

Þær áhyggjur voru þó ekki á rökum reistar, sem betur fer. FH-ingar náðu á næstu fimm mínútum að laga stöðuna, skoruðu 3 mörk í röð og breyttu stöðunni í 18-17. Eftir það var mikið jafnræði með liðunum, eða allt þangað til þegar 7 mínútur voru eftir af leiknum. Þá voru FH-ingar komnir með fjögurra marka forskot, 24-28, og litu ansi hreint vel út. En Framarar voru ekki á þeim buxunum að gefast upp og náðu á þremur mínútum að minnka muninn niður í eitt mark á ný, 27-28, og mátti því búast við æsispennandi lokamínútum. FH-ingar voru mun sterkari síðustu mínúturnar og náðu að lokum að landa góðum 5 marka sigri á Fram, 28-33.


Daníel hafði ástæðu til þess að fagna í dag – 17 varin skot hjá drengnum.

FH-ingar sýndu gríðarlega seiglu með því að sigra í þessum leik. Þeir héldu baráttunni allan tímann, spiluðu góðan varnarleik, markvarslan var góð og strákarnir voru að sama skapi sprækir sóknarlega séð. Það bíttaði engu þótt þeir væru manni færri eða fjórum mörkum undir – alltaf náðu þeir að vinna sig inn í leikinn á ný og í lokin voru þeir einfaldlega mun sterkari. Flottur leikur og verðskuldaður sigur FH-inga. Markahæstur í liði FH-inga var Ásbjörn Friðriksson með 8 mörk, en næstur honum kom Baldvin Þorsteinsson með 6 mörk.

Þessi úrslit þýða það að nú sitja FH-ingar í 2. sæti N1-deildarinnar með 21 stig, 6 stigum á eftir toppliði Akureyrar en tveimur stigum á undan Fram, sem sitja nú í 3. sæti. Feikilega gott fyrir FH-inga að koma sér upp í 2. sætið, sér í lagi þar sem að það gefur heimaleikjarét

Aðrar fréttir